Fréttir
Ís á Elliðavatni
Ís á Elliðavatni 30. nóvember 2008.

Tíðarfar í nóvember 2008

- stutt yfirlit ásamt haustyfirliti

2.12.2008

Tíðarfar var talið hagstætt lengst af. Hlýjast var að tiltölu inn til landsins en á Vestfjörðum var hiti aðeins rétt ofan meðallags. Síðustu dagar mánaðarins voru kaldir um land allt. Meðalhiti í Reykjavík var 2,8 stig og er það 1,7 stigum ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 1,1 stig, en það er 1,5 stigum ofan meðallags. Á Höfn var meðalhiti 2,5 stig og er það 0,6 stigum yfir meðallagi. Á Hveravöllum var meðalhitinn -2,9 stig, 1,9 stigum yfir meðaltalinu. Víðast hvar á landinu var nóvember í fyrra hlýrri en nú nema suðaustanlands, þar var hlýrra núna.

Í Reykjavík mældist úrkoman 93 mm og er það 28 prósent yfir meðallagi og 20 mm minna en í nóvember í fyrra. Á Akureyri mældist úrkoman 15 prósent undir meðallagi, eða 46 mm. Úrkoma á Höfn í Hornafirði mældist 71 mm, eða 70 prósent meðalúrkomu.

Í Reykjavík mældust 30 sólskinsstundir í nóvember og er það 9 stundum undir meðallagi. Á Akureyri urðu sólskinsstundirnar 7 og er það 8 stundum undir meðallagi. Sólskinsstundir hafa ekki mælst jafnfáar í nóvember á Akureyri síðan 1997 en þá voru þær þrjár.

Meðalhiti (°C), frávik og röð á nokkrum stöðvum. Eins og sjá má var þetta 10. hlýjasti nóvember á Hveravöllum:

stöð hiti frávik röð af
Reykjavík 2,7 1,6 29 143
Stykkishólmur 2,2 1,3 42 165
Bolungarvík 0,9 0,1 54 112
Akureyri 1,1 1,5 35 128
Egilsstaðir 0,6 1,3 23 61
Dalatangi 2,8 1,0 27 71
Höfn í Hornaf. 2,5 0,6 x x
Stórhöfði 3,3 0,8 48 132
Hveravellir -2,9 1,9 10 45

Hæsti hiti í mánuðinum mældist í Kvískerjum í Öræfum þann 18., 18,1°C, en á mannaðri stöð á Skjaldþingsstöðum þann 15., 14,2°C. Lægstur varð hitinn á Brúarjökli þann 30., -18,3°C, en lægstur í byggð í Möðrudal þann 21. -15,8°C. Á mannaðri stöð komst hitinn á Grímsstöðum á Fjöllum niður í -15,6°C þann 15.

Haustið (október og nóvember)

Hiti var mjög nærri meðallagi, október var nokkuð kaldari en í meðalári, en hiti í nóvember var ofan við meðaltalið. Nóvember er venjulega um 3 stigum kaldari en október, en nú munaði nær engu á mánuðunum inn til landsins og á Hveravöllum var nóvember hlýrri en október. Mestur munur á mánuðunum var á Vestfjörðum, en þar var hiti í nóvember nú aðeins 0,1 stigi ofan meðallags. Haustúrkoman á landinu var ekki fjarri meðallagi.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica