Fréttir
Skaftárketill
Skaftárketill hinn vestari. Nýjar hringsprungur greinilegar hægra megin á myndinni.

Skaftárhlaup

22.6.2010

Hlaup hófst í Skaftá sunnudaginn 20. júní. Fyrstu merki um hlaupið komu fram á mæli við Sveinstind aðfaranótt sunnudags en þá byrjaði rafleiðni og aurburður í vatninu að aukast. Um hádegi fór svo vatnsborð árinnar að hækka og náði ákveðnu hámarki undir miðnætti á sunnudag. Rennslið var víða nokkuð stöðugt fram yfir hádegi á mánudag er það fór að vaxa á ný.

Í byggð komu fyrstu merki hlaupsins fram á mæli í Skaftárdal um kvöldmatarleytið á sunnudag og rétt um miðnætti hafði það náð niður undir þjóðveg.

Hlaupið náði 580 m3/sek við Sveinstind síðdegis þriðjudag 22. júní og virtist fara vaxandi.

Í könnunarflugi yfir Vatnajökul kl. 16 hinn 21. júní kom í ljós að hlaupið er ættað úr Skaftárkatli hinum vestari. Greinilega var ekki fullfallið úr katlinum miðað við hve djúpur hann verður venjulega eftir hlaup.

Hlaupið kom undan jöklinum í Skaftá á einum stað innan við Langasjó. Mjög lítið hafði brotnað úr jöklinum við útfallið og fáir jakar við ána. Ekki er búist við skemmdum á mannvirkjum í þessu hlaupi.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica