Fréttir
Rannsóknarferð á Mýrdalsjökul 2013. Unnið við boranir í katli nr. 16 hinn 16. maí.

Tíðarfar í maí 2013

Stutt yfirlit

3.6.2013

Tíðarfar í maí var nærri meðallagi á landinu að slepptum fyrstu dögunum sem voru óvenjukaldir. Snjó leysti venju fremur seint um landið norðaustanvert. Hlýjast var að tiltölu á Austfjörðum. Úrkoma var yfir meðallagi á landinu.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 5,8 stig og er það 0,5 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 1,2 stigum undir meðallagi maímánaða síðustu 10 ára. Þetta er kaldasti maí í Reykjavík síðan 2005 en meðalhiti þá var nær sá sami og nú. Maímánuður 1995 var nokkru kaldari. Meðalhiti á Akureyri var 5,7 stig og er það 0,3 stigum yfir meðallaginu 1961 til 1990 en í meðallagi síðustu tíu ára. Maí 2011 var kaldari á Akureyri heldur en nú.

Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 5,8 -0,6 94 143
Stykkishólmur 5,0 0,1 86 168
Bolungarvík 3,7 -0,3 82 116
Akureyri 5,7 0,3 61 132
Egilsstaðir 4,9 0,0 32 59
Dalatangi 4,1 0,7 33 75
Teigarhorn 5,0 0,5 50 til 51 141
Höfn í Hornaf. 6,4
Stórhöfði 5,8 -0,1 86 136
Hveravellir  0,7 0,1 29 47
Árnes 5,4 -0,7 87 til 88 [133]

Meðalhiti í maí 2013 ásamt viki frá meðallaginu 1961 til 1990 og röð frá þeim hlýjasta talið.


Hæstur var meðalhiti mánaðarins á Skarðsfjöruvita, 6,8 stig og 6,7 í Önundarhorni undir Eyjafjöllum. Lægstur var meðalhitinn á Þverfjalli, -1,9 stig og -1,8 á Gagnheiði. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, 1,5 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Sauðárkróksflugvelli þann 18., 18,1 stig. Sama dag mældist mestur hiti á mönnuðum stöðvum, 16,2 stig, bæði á Bergstöðum í Skagafriði og á Akureyri.

Lægstur mældist hitinn -21,7 stig á Brúarjökli þann 2. Svo mikið frost hefur aldrei áður mælst í maí á Íslandi svo vitað sé. Í byggð mældist hitinn lægstur á sjálfvirku stöðinni á Grímsstöðum, -17,6 stig. Er það lægsti hiti sem mælst hefur í byggð á Íslandi í maí. Þann 1. maí 1977 mældust -17,5 stig í Möðrudal. Hitinn á mönnuðu stöðinni á Grímsstöðum fór sömu nótt niður í -14,5 stig. Fimm nætur mánaðarins voru alveg frostlausar í byggð.

Lágmörkin á Brúarjökli og Grímsstöðum 2. eru einnig dægurlágmörk fyrir þann dag. Ekkert landsdægurhámarksmet var sett í mánuðinum.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 44,9 mm og er það í meðallagi maímánaðar. Á Akureyri mældist úrkoman 49,0 mm en það meir en tvöföld meðalúrkoma í maí. Þetta er með mesta móti í maí, en þó var úrkoma meiri í maí 2011. Í Stykkishólmi mældist úrkoman aðeins 44,8 mm og er það þriðjungi umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 123,4 mm, það mesta í maí á þeim slóðum síðan 1989. Úrkomudagar á þessum stöðvum voru nærri meðallagi nema á Akureyri þar sem úrkoma mældist 1 mm eða meiri í 10 daga, en meðaltalið er fimm.

Úrkoma mældist meiri í maí heldur en mest hefur mælst í þeim mánuði áður á þremur stöðvum sem byrjuðu að athuga 1998. Þetta eru Auðnir í Öxnadal, Torfur í Eyjafirði og Gilsá í Breiðdal. Mánaðarúrkoman nú á Mýri í Bárðardal er lítillega meiri heldur en mest hefur mælst þar áður í maí. Á Mýri hefur úrkoma verið mæld frá 1957.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 204,3 og er það 12 stundum umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 135,3. Það er 39 stundum undir meðallagi. Sólskinsstundir voru enn færri á Akureyri í maí 2011, en gríðarlegur munur er á maí í ár og í fyrra en þá mældust sólskinsstundirnar á Akureyri 287.

Snjólag

Snjólétt var á landinu sunnan- og vestanverðu en töluverðar snjófyrningar voru norðaustanlands. Ekki varð alhvítt í Reykjavík eða á Akureyri í mánuðinum. Á Akureyri voru 7 dagar með flekkóttri jörð og snjólag mánaðarins því 11 prósent. Það er svipað og var í fyrra (2012).

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði var nærri meðallagi. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1008,0 hPa og er það 4,5 hPa undir meðallagi. Hæsti þrýstingur mánaðarins mældist í Bolungarvík þ. 22, 1030,6 hPa. Lægstur mældist þrýstingurinn í Grindavík þann 4., 977,1 hPa.


Sólstólpi séður yfir Húsavík frá Mývatni hinn 17. maí 2013 kl. 23:30. Sólstólpi kemur fram þegar sólarljósið speglast á ískristöllum. Ljósmynd: Einar Héðinsson. Sjá fróðleikspistil um sólstólpa.

Vorið (apríl og maí)

Vorið var kalt, meðalhiti í Reykjavík hefur ekki orðið lægri síðan 1989. Frá 1870 hafa 34 vor verið kaldari en nú. Vorið á Akureyri er það kaldasta síðan 1995 en þar hafa 33 vor verið kaldari en nú.

Vorúrkoman í Reykjavík er 15 prósent undir meðallagi. Úrkoma hefur ekki verið jafnmikil á Akureyri að vori til síðan 1985, en var þó svipuð 1989.

Hiti fyrstu fimm mánuði ársins

Meðalhiti fyrstu fimm mánaða ársins í Reykjavík er nú í 15. til 17. sæti af 143 á lista hlýrra ára, en í 30. sæti af 132 á Akureyri.

Skjöl fyrir maímánuð

Þessa grein, Tíðarfar í maí 2013, má einnig lesa sem pdf-skjal (0,3 Mb).

Skoða má textaskjal, meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í maí 2013.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica