Fréttir

Úttektarskýrsla IPCC: Áhrif mannkyns á loftslag eru skýr

Samantekt nýjustu skýrslu vinnuhóps-I hjá Milliríkjanefnd S.þ. samþykkt af stjórnvöldum

27.9.2013

Á fundi í Stokkhólmi 23. - 26. september 2013 samþykktu aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna samantekt nýjustu skýrslu Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar (IPCC).

Nokkrir vinnuhópar starfa á vegum nefndarinnar og fjallar einn þeirra (WGI) um breytingar á jarðeðlis- og jarðefnafræðilegum kerfum.

Hópurinn hefur lagt mat á tiltæk gögn um  aukningu gróðurhúsalofttegunda, hlýnun jarðar, súrnun sjávar, bráðnun jökla og breytingar á veðurfari, auk útreikninga á sviðsmyndum um loftslagsbreytingar. Niðurstöður þessarar ítarlegu könnunar gefa hugmynd um hvernig loftslag á jörðinni kann að breytast á næstu áratugum.

Á loftslagssíðum Veðurstofunnar er ítarlegur útdráttur á íslensku um efni skýrslunnar. Hér fylgir þýðing á fréttatilkynningu IPCC, Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar:

Áhrif mannkyns á loftslag eru skýr samkvæmt skýrslu IPCC

Stokkhólmi 27.09.2013 2013/20/PR

Áhrif mannkyns á loftslag eru skýr. Þessi áhrif eru komin fram á flestum svæðum jarðar samkvæmt niðurstöðum nýrrar skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

Það er nánast öruggt að áhrif mannkyns hafa verið ráðandi orsök þeirrar hlýnunar sem mælst hefur frá miðri 20. öld. Vísbendingar um þetta hafa styrkst sökum meiri og betri gagna, betri skilnings á viðbrögðum andrúmsloftsins og betri loftslagslíkana.

Hlýnun loftslags er óumdeilanleg. Síðan 1950 hafa margar breytingar mælst í ýmsum þáttum veðurfarskerfis jarðar sem ekki eru dæmi um í loftslagssögu síðustu áratuga til árþúsunda. Meðalhiti við yfirborð jarðar fyrir hvern og einn síðustu þriggja áratuga hefur verið hærri en meðalhiti nokkurs fyrri áratuga frá 1850, segir í Samantekt fyrir stjórnvöld og stefnumótendur úr IPCC skýrslu vinnuhóps I um breytingar á jarðeðlis- og jarðefnafræðilegum kerfum (IPCC Working Group I assessment report, Climate Change 2013: the Physical Science Basis) sem samþykkt var í dag á fundi fulltrúa stjórnvalda í Stokkhólmi.

„Mælingar á breytingum á veðurfari eru á byggðar mörgum óháðum þáttum. Mat okkar á niðurstöðum rannsókna á veðurfarsbreytingum er að lofthjúpurinn og heimshöfin hafa hlýnað, snjóhula degist saman, jöklar hopað, sjávarborð hækkað og styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti hefur hækkað,“ sagði Qin Dahe, varaformaður vinnuhóps I.

Thomas Stocker, sem er annar af tveimur varaformönnum vinnuhóps I, sagði: „Áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda mun valda áframhaldandi hlýnun og breytingum í öllum þáttum veðurfars jarðarinnar. Ef takmarka á loftslagsbreytingarnar er þörf á verulegri og varanlegri minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda.“

„Samkvæmt öllum nema einni sviðsmynd um losun gróðurhúsalofttegunda, sem gengið var út frá, er líklegt að hlýnun við yfirborð jarðar undir lok þessarar aldar muni verða meiri en 1,5 °C miðað við meðaltal tímabilsins 1850–1900 og hlýnunin reiknast meiri en 2 °C samkvæmt þeim tveimur sviðsmyndum þar sem losun er mest,“ sagði Thomas Stocker, varaformaður. „Hitabylgjur verða væntanlega tíðari og standa lengur. Eftir því sem jörðin hlýnar gerum við ráð fyrir að úrkoma aukist á rökum svæðum en minnki á þeim svæðum sem þurr eru fyrir, þó undantekningar verði á þessu,“ bætti hann við.

Spár um loftslagsbreytingar eru byggðar á fjórum nýjum sviðsmyndum um losun gróðurhúsalofttegunda og agna upp í lofthjúpinn sem spanna breitt svið mögulegrar framtíðarlosunar. Skýrsla vinnuhóps I lagði mat á hnattrænar og staðbundnar loftslagsbreytingar fyrir fyrri hluta, miðbik og síðari hluta 21. aldar.

„Eftir því sem hafið hlýnar og jöklar og íshvel minnka mun hækkun sjávarborðs heimshafanna halda áfram en herða mun á hækkuninni miðað við það sem mælst hefur síðustu 50 ár,“ sagði Qin Dahe, varaformaður vinnuhóps I. Í skýrslunni segir að mikil vissa sé um að höfin gleypi mest af þeirri varmaorku sem bætist við vegna hnattrænnar hlýnunnar, eða sem nemur yfir 90% af varmaorkunni sem bættist við á árabilinu 1971–2010.

Thomas Stocker, varaformaður vinnuhóps I, dró saman eftirfarandi niðurstöðu: „Áframhaldandi loftslagsbreytingar eru óumflýjanlegar vegna losunar okkar til þessa, nú og losunar sem vænta má í framtíðinni. Áhrifa loftslagsbreytinganna mun gæta í margar aldir jafnvel þó hætt verði að losa CO2.“

Rajendra Pachauri, formaður IPCC, sagði: „Þessi samantekt fyrir stjórnvöld og stefnumótendur úr skýrslu vinnuhóps I gefur mikilvæga yfirsýn um vísindalegan grundvöll rannsókna á loftslagsbreytingum. Hún veitir okkur traustan grundvöll til greiningar á áhrifum loftslagsbreytinga á mannlegt samfélag og náttúrufar og möguleika okkar til þess að takast á við þær áskoranir sem loftslagsbreytingar fela í sér.“ Þessi áhrif eru til umfjöllunar í skýrslum vinnuhópa II og III sem gefnar verða út í mars og apríl 2014. Útgáfu 5. skýrslu IPCC lýkur í október 2014 þegar út kemur samantektarskýrsla þar sem dregnar verða saman niðurstöður vinnuhópanna þriggja.

„Ég vil þakka varaformönnum vinnuhóps I og þeim hundruðum vísindamanna og sérfræðinga sem komið hafa að ritun og yfirlestri fyrir að hafa gefið út ýtarlega og vísindalega trausta samantekt. Ég þakka líka yfir þúsund sérfræðingum um allan heim sem komið hafa að rýningu skýrslunnar fyrir þeirra framlag við undirbúning þessarar úttektar,“ sagði Pachauri formaður.

Samantekt fyrir stjórnvöld og stefnumótendur úr skýrslu vinnuhóps I í 5. úttekt IPCC  (WGI AR5) er aðgengileg á www.climatechange2013.org eða á www.ipcc.ch.

Meginniðurstöður

Sjá sérstakt staðreyndablað með helstu niðurstöðum úr Samantekt fyrir stjórnvöld og stefnumótendur úr skýrslu vinnuhóps I sem aðgengilegt er á www.climatechange2013.org.

Bakgrunnur

Varaformenn vinnuhóps I eru Quin Dahe, frá Veðurstofu Kína í Beijing í Kína, og Thomas Stocker, frá Háskólanum í Bern í Sviss. Skrifstofa vinnuhóps I er við Háskólann í Bern og er fjármögnuð af Svissneskum stjórnvöldum.

Á 28. fundi IPCC í apríl 2008 var ákveðið að semja fimmtu úttektarskýrslu milliríkjanefndarinnar (AR5). Fundur sem lagði upp fyrstu drög að uppbyggingu skýrslunnar var haldinn í júlí 2008. Þessi tillaga var samþykkt á 31. fundi IPCC í október 2008.

Samantekt fyrir stjórnvöld og stefnumótendur úr skýrslu vinnuhóps I var samþykkt á 12. fundi vinnuhóps I í Stokkhólmi 23. til 26. september 2013 og dreift þann 27. september.

Lokadrög skýrslu vinnuhóps I (sem dreift var til stjórnvalda víða um heim 7. júní 2013), með tæknilegri samantekt, fjórtán köflum og yfirliti um hnattrænar og staðbundnar spár um loftslagsbreytingar, verða gerð opinber mánudaginn 30. september. Skýrslan verður gefin út í heild sinni á vefnum í janúar 2014, að loknu samræmingar- og leiðréttingarferli, og gefin út af Cambridge University Press nokkrum mánuðum síðar.

Úttekt vinnuhóps I er um 2500 blaðsíður og byggir á milljónum mælinga og yfir 2 milljónum gígabæta af niðurstöðum tölulegra veðurfarslíkana. Vísað er til yfir 9200 ritgerða í vísindarritum og eru þrír fjórðu hlutar þeirra birtir eftir að síðasta úttektarskýrsla IPCC kom út 2007.

Í þessari úttektarskýrslu IPCC er notað visst kvarðað orðalag til þess að tilgreina líkur á tiltekinni atburðarás eða niðurstöðu. Þetta orðalag, sem notað er hér að framan, hefur eftirfarandi merkingu:

  • Nánast öruggt þýðir 99–100% líkur,
  • afskaplega líklegt: 95–100%,
  • mjög líklegt: 90–100%,
  • líklegt: 66–100%.

Nánari upplýsingar má nálgast á minnisblaði IPCC um meðhöndlun óvissu (pdf á ensku 3,3 Mb).

Frekari upplýsingar má nálgast með því að hafa samband við:

IPCC Press Office, tölvupóstur: ipcc-media@wmo.int

Jonathan Lynn, + 41 22 730 8066 eða Werani Zabula, + 41 22 730 8120

IPCC Working Group I Media Contact, tölvupóstur: media@ipcc.unibe.ch

Pauline Midgley, +41 31 631 5620

Fréttatilkynningin á ensku: 2013/20/PR. Þýðing Tómas Jóhannesson.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica