Fréttir

Hvernig verður veðrið 2050?

Umhverfisvika í New York og íslenskt veður

18.9.2014

Um komandi helgi verður haldin svokölluð umhverfisvika, Climate Week NYC, í aðdraganda ráðstefnunnar UN Climate Summit þar sem Sameinuðu þjóðirnar boða heimsleiðtoga á fund til að ræða yfirstandandi loftslagsbreytingar.

Fulltrúi Íslands á umhverfisvikunni í New York verður Birta Líf Kristinsdóttir, Veðurstofu Íslands, ein af 11 sjónvarpsveðurfræðingum sem voru beðnir að gera veðurspá fyrir sitt landsvæði fyrir árið 2050 byggða á nýjustu skýrslu IPCC. Þessar framtíðarveðurspár eru á formi myndbanda sem eru gerð í samvinnu við WMO og sýnd eitt og eitt á dag fram að ráðstefnunni.

Veðurspá sem þessi er ekkert áhlaupaverk og leitaði Birta ráða hjá ýmsum sérfræðingum Veðurstofunnar; þeim Halldóri Björnssyni, Tómasi Jóhannessyni, Oddi Sigurðssyni o.fl. enda eru í myndbandinu einnig reifaðar helstu afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir Ísland. Öll myndböndin enda á ákalli aðalritara SÞ, Ban Ki-moon.

Veðurspáin fyrir Ísland 2050

Það lítur út fyrir að það hlýni í veðri og rigning verði meiri en í dag. Með hlýnandi veðri eykst svæðið þar sem skógur getur þrifist, þó að það þýði ekki endilega að skógur muni þrífast þar. Hér kemur ýmislegt inn í, eins og sauðkindin okkar sem gæti haldið gróðri niðri.

Aftur á móti má gera ráð fyrir að nýjar dýrategundir nái fótfestu hér með hlýnandi veðri og raski lífríki Íslands, ekki síst í sjónum. Sjórinn mun súrna og ákveðnar dýrategundir þar munu flytjast norður og nýjar koma úr suðri. Þetta getur haft mjög slæm áhrif á sjávarútveginn.

Jöklarnir hafa verið að bráðna og munu halda áfram að bráðna á komandi árum. Búist er við að þeir verði næstum því horfnir eftir 200 ár.

Mikið af þessum afleiðingum er hægt að sjá nú þegar í dag: Jökullinn Ok, vestur af Langjökli, hefur minnkað svo mikið að hann telst varla jökull lengur; á hverju ári berast fréttir um nýjar tegundir í sjónum í kringum okkur; meðalhitastig síðustu 10 ára hefur verið vel fyrir ofan meðaltal 20. aldarinnar svo þrjú dæmi séu tekin.

Aðgerðir

Það er hægt að gera margt til að draga úr gróðurhúsalofttegundum og hægja þannig á þessari þróun. Til dæmis geta einstaklingar og samfélög gert sameiginlegt átak í að efla umhverfisvænar samgöngur. Annað er að minnka kjötneyslu ef svo háttar til að framleiðsla þess veldur þungu vistspori.

Hið þriðja er að minnka notkun skaðlegra efna en það er annað dæmi um sameiginlegt átak sem getur sprottið bæði úr grasrótinni og ofan að, því ef stjórnvöld setja reglur um merkingar, framleiðendur merkja sína vöru og neytendur stýra innkaupum sínum eftir merkingunum, aukast líkurnar á að fundnar verði aðrar lausnir, minna skaðlegar.

Margt fleira er í umræðunni sem verður æ almennari.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica