Fréttir
Morgunsól á Raufarhöfn í febrúar.

Tíðarfar í febrúar 2015

Stutt yfirlit

11.3.2015

Mánuðurinn var kaldur miðað við það sem algengast hefur verið í febrúar á seinni árum og var hitinn undir meðallagi síðustu tíu ára alls staðar á landinu, og undir meðallagi áranna 1961 til 1990 um landið sunnan- og suðvestanvert og víða vestanlands. Úrkomusamt var um nær allt land. Umhleypingasamt var og veðurlag nokkuð stórgert og meðalvindhraði óvenjuhár. Oft urðu samgöngutruflanir vegna hríðarbylja, einkum á fjallvegum. Skaðar urðu vegna flóða í hlýindum fyrir miðjan mánuð.

Hiti

Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík mældist -0,1 stig, -0,5 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -1,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er kaldasti febrúar í Reykjavík frá 2008 að telja. Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn -0,6 stig, 0,9 stigum yfir meðallagi 1961 til 1990, en -0,5 undir meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik 1961-1990 röð af vik 2005 til 2014
Reykjavík -0,1 -0,5 68 145 -1,7
Stykkishólmur -0,4 0,3 64 170 -1,2
Bolungarvík -1,5 -0,5 65 118 -1,6
Grímsey -0,4 0,5 64 142 -1,0
Akureyri -0,6 0,9 46 134 -0,5
Egilsstaðir -0,5 1,4 22 61 0,0
Dalatangi 1,7 1,1 21 77 -0,2
Teigarhorn 0,8 0,5 50 143 -0,7
Höfn í Hornaf. 1,3 0,8 -0,6
Stórhöfði 1,0 -1,0 82 139 -1,9
Hveravellir  -5,9 0,0 27 -0,4
Árnes -1,6 -0,5 63 136 -1,8

Meðalhiti og vik á nokkrum stöðvum

Að tiltölu var hlýjast um landið austanvert en kaldast vestast á landinu og sums staðar við suðurströndina. Vik frá meðallagi síðustu tíu ára var minnst á Egilsstöðum, -0,0 stig, en mest á Hornbjargsvita, -2,3 stig.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 2,3 stig, en lægstur á Þverfjalli, -7,3 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Svartárkoti, -4,1 stig.

Landsmeðalhiti í byggð var undir frostmarki 17 daga mánaðarins.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 17,4°C á Dalatanga þann 8. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á sama stað daginn eftir, 16,8 °C. Lægsti hiti á landinu mældist -25,8 stig á Brúarjökli þann 21. Lægsti hiti í byggð mældist -24,1 stig í Svartárkoti þann 21. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist -20,2 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 22.

Fáein landsdægurmet voru sett í mánuðinum. Frostið þann 21. á Brúarjökli, -25,8 stig, er það mesta sem mælst hefur á landinu þennan almanaksdag, eldra met var sett í Möðrudal 1986 og var -24,0 stig. Þrjú ný landshámarksdægurmet voru sett í hlýindunum í fyrri hluta mánaðarins. Þann 5. mældist hámarkshiti á Eskifirði 13,8 stig, eldra met var 13,5 stig, frá árinu 2006. Þann 8. mældist hámarkshiti á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga 17,4 stig, eldra met var 17,0 stig, sett á sama stað 1960. Þann 9. var hámarkshiti á mönnuðu stöðinni á Dalatanga 16,8 stig og sló út eldra dægurmet, 14,0 stig, sem sett var á Seyðisfirði 1983.

Úrkoma

Úrkomusamt var um mestallt land.

Úrkoma í Reykjavík mældist 93,2 mm og er það nærri 30 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 56,7 mm, eða 33 prósent umfram meðallag. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 130 mm sem er 88 prósent umfram meðallag og það mesta í febrúar síðan 2004. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 163,0 mm. Að tiltölu var úrkoman mest á Vestfjörðum, í Bolungarvík mældist hún 313 mm og er það mun meira en mest hefur þar mælst í febrúar áður.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 16 í Reykjavík og er það 3 fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 13, 4 fleiri en að meðallagi.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 34,3 og er það 18 stundum undir meðallagi 1961 til 1990 og 32 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir hafa ekki mælst jafnfáar í febrúar í Reykjavík síðan 1993, en voru þó nærri því eins fáar 2012 og 2005. Sólskinsstundir á Akureyri mældust 28,7 og er það 8 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990.

Ský og jökull
""
Vindskafin ský yfir Kverkfjöllum í Vatnajökli hinn 5. febrúar 2015. Ljósmynd: Hlynur Skagfjörð Pálsson.

Snjólag

Snjór var var lengst af ekki mikill, einna mestur þó um miðbik Norðurlands og einnig á Vestfjörðum síðari hluta mánaðarins.

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 10. Að meðaltali 1971 til 2000 var alhvítt 13 daga í febrúar. Alhvítt var 16 daga á Akureyri, það er 5 dögum færra en í meðalfebrúar.

Samgöngur riðluðust nokkuð á vegum úti í hríðarveðrum í mánuðinum.

Vindhraði og loftþrýstingur

Meðalvindhraði var óvenjumikill, 1,5 m/s ofan við meðallag. Þetta er mesti meðalvindhraði í febrúar frá 1989 að telja, en var reyndar litlu minni í febrúar í fyrra.

Vindáttir voru óstöðugar, suðlægar og vestlægar áttir voru þó ríkjandi fyrstu 11 dagana. Stormasamt var með köflum, einna hvössust var sunnan- og vestanáttasyrpa dagana 6. til 10., landsynningsveður þann 14., austan- og norðaustanillviðri 22. og 23. og austan- og suðaustanveður þann 25. Síðasttöldu tvö veðrin voru þau útbreiddustu. Nokkrar samgöngutruflanir urðu fleiri daga.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 994,9 hPa og er það -7,7 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Lægstur mældist þrýstingurinn á Eyrarbakka þann 26., 948,6 hPa. Þetta er lægsti þrýstingur sem mælst hefur í febrúar hér á landi síðan 2002. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1035,4 hPa, í Önundarhorni þann 7.

Fyrstu tveir mánuðir ársins 2015

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tvo mánuði ársins er -0,2 stig, -0,1 stigi undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Meðalhiti fyrstu tveggja mánaða ársins 2008 var sá sami í Reykjavík og nú. Á Akureyri var meðalhiti janúar og febrúar nú -0,9 stig, +0,9 stigum yfir meðallagi sömu mánaða 1961 til 1990. Janúar og febrúar 2010 voru kaldari á Akureyri en nú.

Úrkoma í Reykjavík í janúar og febrúar mældist samtals 220,5 mm og er það um 50 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Úrkoma var síðast meiri en þetta sömu mánuði 2013. Á Akureyri mældist úrkoman á sama tíma 127,2 mm eða 30 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990.

Skjöl fyrir febrúar

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í febrúar 2015 (textaskjal).

Þessa grein er einnig hægt að sækja eða lesa sem pdf-skjal, Tíðarfar í febrúar 2015 (0,3 Mb)

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica