Fréttir
Jarðskjálftar við Kleifarvatn
Myndin sýnir upptök skjálfta við Kleifarvatn 29. maí 2015.

Jarðskjálftahrina við Kleifarvatn

29.5.2015

Stuttu eftir hádegið þann 29. maí kl. 13:10 varð skjálfti af stærð 4 með upptök undir norðanverðum Sveifluhálsi við Kleifarvatn. Hann fannst víða á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Annar skjálfti af stærð 3,1 varð um klukkustund fyrr á sömu slóðum og fannst hann einnig í Reykjavík.  Skjálftarnir voru á 3-4 kílómetra dýpi.

Skjálftahrina hófst í morgun á þessum slóðum og hafa um 100 skjálftar mælst nú þegar í hrinunni. Brotlausnir skjálftanna sýna aðallega siggengishreyfingar þar sem brotflöturinn liggur samsíða Sveifluhálsinum. Upptök skjálftanna fylgja stefnu Krýsuvíkursprungusveimsins sem liggur í norðaustur-suðvestur.

Sprungukerfi Reykjanesskagans eru tviþætt. Annars vegar í norður-suður stefnu sem fylgir flekaskilunum (sniðgengishreyfingar) og hins vegar norðaustur-suðvestur stefnu sem fylgir eldstöðvakerfum (siggengishreyfingar). Skjálftahrinur á Reykjanesskaga fylgja að jafnaði öðru hvoru þessara kerfa. Engin sýnileg merki eru um kvikuhreyfingar í þessari hrinu.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica