Fréttir
Skaftá við Búland.

Framvinda Skaftárhlaupsins

Helstu punktar frá fyrri hluta dags

2.10.2015

Rennslið

Útlit er fyrir að rennsli í Skaftá við Sveinstind hafi náð hámarki um kl. 2 í nótt, 2 október.

Samkvæmt síritandi vatnshæðarmæli þar var rennslið rétt tæpir 2100 m³/s í hámarkinu. Búast má við að raunverulegt rennsli hafi þó verið töluvert miklu meira þar sem mikið vatn rennur utan mælisviðs stöðvarinnar. Má jafnvel gera ráð fyrir að rennslið hafi orðið um 3000 m³/s.

Rennsli í Eldvatni við Ása var enn vaxandi í morgun og rétt fyrir kl. 11 var það um 2150 m³/s. Gera má ráð fyrir að rennsli þar sé að ná hámarki nú eftir hádegið. Mikið vatn rennur einnig víðsvegar út á hraunið og má búast við að þar flæði næstu daga.

Gasmælingar

Tveir brennisteinsmælar og einn fjölþátta MultiGas mælir hafa verið teknir í notkun til þess að fylgjast með gasútstreymi í tengslum við jökulhlaupið í Skaftá og flóðvatnið sem streymir fram.

Gögnum úr mælunum er streymt til Umhverfisstofnunar og þau birt á loftgæðavef stofnunarinnar. Mælirinn á Sveinstindi sýnir eingöngu lág gildi og þetta er staðfest með handmælum starfsmanna Veðurstofunnar úti í mörkinni. Mælirinn í Skaftárdal sýndi aftur á móti mjög háan topp (allt að 6.500 µg/m³) síðastliðna nótt en skömmu síðar rofnaði sambandið. Vera má að toppurinn tengist því að mælinum hafi skolað burt með flóðvatninu og gildið er þá ekki heimfæranlegt upp á svæðið.

MultiGas mælirinn, sem er hluti af FutureVolc verkefninu, sendir ekki gögn en skráir þau og mun hafa áhugaverða mæliröð að sýna þegar hann verður sóttur.

Fimmtudaginn 1. október bárust tilkynningar um brennisteinslykt á Egilsstöðum, Snæfelli og Seyðisfirði. Talið er að stíf suðvestanátt hafi borið loftmassa frá Skaftá norðaustur yfir Vatnajökul.

Flóðvatnið

Rennsli í Eldvatni við Ása er nú meira en áður hefur sést. Áin flæðir út fyrir farveg. Áin á eftir að vaxa mikið enn. Næstu daga mun flóðvatn aukast utan farvegar.

Skýrsla

Á þessu ári var gefin út skýrsla um vatnafar í Eldhrauni (pdf 2,4 Mb).





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica