Fréttir
Við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna.

Parísarsamningurinn undirritaður

Vinna við næsta skref er hafin

25.4.2016

Á alþjóðlegum degi jarðarinnar 2016, hinn 22. apríl, undirritaði Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra Parísarsamninginn um aðgerðir í loftslagsmálum. Með undirskrift sinni lýsa fulltrúar ríkisstjórna yfir vilja sínum til að uppfylla ákvæði samningsins.

Í ávarpi sínu sagði ráðherra að Ísland ynni að því að framkvæma markmið samningsins með aðgerðum á sviði samgangna, fiskveiða og landbúnaðar, auk kolefnisbindingar með skógrækt og landgræðslu. Athöfnin fór fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Alls undirrituðu 175 ríki samninginn, sjá lista, og aldrei hafa fleiri ríki undirritað alþjóðasamning á fyrsta degi.

Í kjölfar undirskriftar þarf hvert ríki, sem vill teljast aðili að Parísarsamningnum, að fullgilda hann. Fullgilding jafngildir staðfestingu á því að samningurinn hafi verið samþykktur í samræmi við innri reglur viðkomandi ríkis og eru ríkin frá þeim tíma bundin við reglur hans. Vinna við fullgildingu samningsins á Íslandi er hafin en hún kallar meðal annars á þýðingu og lagalega rýni varðandi atriði sem kann að þurfa að leiða í íslensk lög. Nánar má lesa um þetta á vef umhverfisráðuneytisins.

Ákvæði eru í Parísarsamningnum um að hann gangi í gildi alþjóðlega þegar minnst 55 ríki með 55% af heimslosun hafa fullgilt hann.

Dagur jarðar eða Earth Day var haldinn í fyrsta sinn árið 1970 en árið áður steig maðurinn fæti á tunglið og eflaust hafa myndir, sem birtar voru af jörðinni úr fyrstu geimferðunum, stuðlað að hugarfarsbreytingunni sem þurfti til þess að hægt væri að taka upp slíkan alþjóðadag. Umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi 1972 markaði síðan tímamót.

Fréttir frá því í desember 2015

Tímamótasamningur um markmið í loftslagsmálum samþykktur

Erindi um jökla á loftslagsráðstefnunni í París - Norræni skálinn





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica