Gildi og framtíðarsýn

Gildi og framtíðarsýn

Gildin okkar eru þekking, áreiðanleiki, samvinna og framsækni.

Við lítum á þekkingu sem býr í fólkinu okkar og felst í verklagi og upplýsingum sem verðmæta auðlind. Við leggjum kapp á að viðhalda henni, afla nýrrar og miðla til að tryggja framúrskarandi hæfni og þjónustu á okkar sviði.

Áreiðanleiki þýðir að við leggjum metnað okkar í vönduð vinnubrögð og fagmennsku í öllum þáttum starfseminnar. Við stöndum við skuldbindingar okkar gagnvart hvert öðru og þeim sem reiða sig á þjónustu okkar. Við leggjum mikið á okkur til að ferlin frá mælingum til spágerðar og miðlunar reynist sem bestur grunnur ákvarðana.

Samvinna einkennir allt okkar starf innan stofnunarinnar og gagnvart ytri aðilum. Við erum örlát í því samstarfi. Við erum meðvituð um vægi þess að skiptast á skoðunum með gagnkvæmri virðingu og trausti, gefum okkur tíma til að hlusta og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Við hjálpumst að til að tryggja hámarks skilvirkni og bestu lausnir á viðfangsefnum.

Framsækni teljum við vera grunn að því að viðhalda getu okkar til að þjónusta samfélagið. Við gefum okkur tíma til að fylgjast með og taka þátt í þróun á fagsviðum okkar, hlusta á notendur þjónustunnar og aðlaga okkur á breyttum þörfum samfélagsins. Við höfum kjark til að skapa og takast á við tækifæri sem felast í breytingum á umhverfinu.

Framtíðarsýn

Ánægja notenda – uppfyllum þarfir

Í árslok 2021 hefur starfsemi Veðurstofunnar þróast í takt við þarfir og væntingar almennings, hagsmunaaðila og atvinnulífs. Vel yfir 80% þeirra sem reiða sig á þjónustu okkar gefa okkur enn og aftur framúrskarandi umsögn í mælingum á þjónustu og trausti. Við höfum styrkt stöðu okkar sem eftirsóttur samstarfsaðili.

Jákvæður höfuðstóll – tryggar sértekjur

Við höfum óslitna fimm ára sögu af árangursríkum rekstri með jákvæðum höfuðstól og höfum enn frekar þróað getu okkar til að afla tekna samhliða þróun þjónustunnar. Með því að viðhalda öflugri sérstöðu hefur okkur tekist að halda sterkum tekjustofnum sem koma frá innlendum og erlendum aðilum.

Mæling á áreiðanleika – tíma varið í þróun

Gæði og áreiðanleiki einkenna allt okkar innra starf. Við sættum okkur ekki við ófyrirséða stöðvun lykilkerfa. Spár okkar mælast yfir 90% í nákvæmni. Við náum að afhenda 95% samfelluverkefna og 90% óreglubundinna verkefna innan tímamarka. Við verjum að jafnaði 22% af vinnutíma okkar í rannsóknir, nýsköpun og þróun og birtum árlega ekki færri en 10 greinar í viðurkenndum tímaritum þar sem starfsmenn Veðurstofunnar eru leiðandi aðilar.

Aukin ánægja og stolt starfsmanna – þekkingarstjórnun

Ráðningar taka mið af gildum Veðurstofunnar og við lítum á viðhald og öflun þekkingar sem kjarnaþátt í starfseminni. Með markvissri vinnu hefur okkur tekist að hækka gæði stjórnunar, ánægju og stolt upp í 4,2 af 5 mögulegum. Starfsþróun hefur náð að vera reglubundinn þáttur í mannauðsstjórnun og verjum við að jafnaði 4% af vinnutíma okkar til starfsþróunar. Fagfólk á okkar sviðum sækist eftir að vinna hjá Veðurstofunni.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica