Greinar

Veðurathuganaforsíða

Stuttar skýringar

Trausti Jónsson 17.3.2009

Athuganakort

Kortið á veðurathuganaforsíðunni endurnýjast á þriggja tíma fresti. Á því má sjá athuganir á fáeinum stöðvum víða um land. Með því að kitla vinstri músarhnapp má komast inn á nákvæmara kort sem endurnýjast á klukkustundarfresti. Þar má sjá má spásvæðaskiptingu og frekari valmöguleika, sem gefa kost á útsýni til mun fleiri stöðva.

Athuganir á korti

Appelsínugulur punktur sýnir staðsetningu veðurstöðvanna, þar við eru upplýsingar um hita, vindstyrk og veðurhæð. Vindörin sýnir úr hvaða átt vindurinn blæs. Sé norðanátt vísar örin niður, í austanátt vísar hún til vinstri. Á mönnuðum stöðvum birtast upplýsingar einnig í formi veðurtákna. Veðurtáknið er í raun samantekt skýjahulu og veðurs á athugunartíma. Sömu veðurtákn eru notuð í staðaspám og athugunum. Ef músin er færð yfir stað birtist nafn stöðvar í kassa við hliðina, ásamt nánari upplýsingum í textaformi, sé þrýst með músartakka á kortið.

Mun nákvæmara yfirlit um veðurathuganir á má fá á greiningarkorti (Ísland).

Útgildatöflur

Listarnir sýna mesta vindhraða, hæsta og lægsta hita og mestu úrkomu, bæði fyrir daginn fram til þessa og síðustu klukkustund. Val á milli dags og klukkustundar er í flipanum ofan listanna. Nýr dagur byrjar er athuganir klukkan eitt að nóttu fara að berast inn í gagnasafnið. Skipt er á milli láglendis og hálendis við 400 metra hæð yfir sjávarmáli. Í nokkrum tilvikum kann það að virðast ankannalegt val, beðist er velvirðingar á því.

Gögnin sem birtast eru óyfirfarin og geta villur komið fram sem óeðlilega há eða lág gildi. Ekki er hægt að sía burt allar villur án þess að raunveruleg útgildi falli einnig út. Verði notendur varir við kerfisbundnar eða endurteknar villur í listunum ættu þeir að láta Veðurstofuna vita.

Vindhraði

Listarnir sýna mesta 10-mínútna meðalvindhraða dagsins til þessa eða síðustu klukkustundar, ásamt nafni þeirrar stöðvar sem á hámarkið. Vindhraði er ekki mældur á sama hátt á öllum stöðvum. Á stöðvum Veðurstofunnar, Landsvirkjunar og Siglingastofnunar er mælt í 10 metra hæð, en yfirleitt í um 6 metra hæð á stöðvum Vegagerðar ríkisins. Ísing og rafmagnstruflanir eru algengir villuvaldar, villurnar birtast þá stundum sem óeðlilega há gildi, t.d. 80 m/s eða jafnvel enn meir. Mjög ólíklegt er að tölur af þessu tagi séu réttar. Ísingar- og rafmagnstruflanir eru mjög algengar á nokkrum stöðvum, ýmist til lengri eða skemmri tíma. Sé ástandið viðvarandi eru stöðvarnar teknar úr umferð, af listunum. Reynt er þó að halda sem flestum stöðvum hverju sinni innan girðingar.

Hámark og lágmark

Listarnir sýna hæsta og lægsta lágmarkshita í dag á landinu til þessa, sömuleiðis hæsta og lægsta hita hverja klukkustund. Á nokkrum stöðvum í fjallshlíðum nærri upptakasvæðum snjóflóða eru hitamælingar ekki gerðar við staðalaðstæður, þessara stöðva er ógetið í listunum. Auk þess er nokkrum stöðvum, þar sem miklar villur eru algengar í mælingum, haldið utan við listann. Rétt er að geta einkennilegrar villu sem er viðloðandi stöðina á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og ekki hefur tekist að útrýma. Stöku sinnum gefur stöðin að tilefnislausu upp hámarkshitann 19,0°C eða lágmarkshita 1,0°C. Í listunum er ekki enn gerð tilraun til að leiðrétta þetta.

Úrkomumælingar

Sjálfvirkar úrkomumælingar eru erfiðar og taka ber listum um hámarksúrkomu með varúð. Vandamálin eru sérlega snúin í snjókomu og skafrenningi að vetrarlagi. Einkennilegar tölur birtast því öðru hverju í listunum, sérstaklega er varað við truflunum á hálendisstöðvum að vetrarlagi. Þar kunna gildi að vera allt of há. Í listanum er skipt milli sólarhringa um miðnætti. Tölurnar eru því ekki beint sambærilegar við þær sem sjá má á sólarhringsúrkomukortinu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica