Fréttir
Kerlingarfjöll séð frá Blágnípujökli, sem skríður úr Hofsjökli til suðvesturs. Mynd: Valdimar Leifsson
Kerlingarfjöll séð frá Blágnípujökli, sem skríður úr Hofsjökli til suðvesturs

Afkoma Hofsjökuls lítillega jákvæð

Niðurstöður árlegrar haustferðar Veðurstofunnar

23.11.2018

Sumarleysing á Hofsjökli var mæld í árlegri haustferð starfsmanna Veðurstofunnar 7.–10. október sl. Var þá lesið af stikum, sem boraðar voru í jökulinn í vorferð um mánaðamótin apríl–maí. Veður var með besta móti í haustferðinni, talsvert nýsnævi á jöklinum og vélsleðafæri gott. Gekk því greiðlega að komast til mælinga í öllum stikum á Sátujökli, Þjórsárjökli og Blágnípujökli auk þess sem mælt er á tveim stöðum á Blautukvíslarjökli.

Hofs1_B

Bergur Einarsson og Vilhjálmur Kjartansson við stikuleit á Blautukvíslarjökli. Gula leitartækið greinir merki frá örflögu á kafi í snjó. Slíkar flögur eru festar efst á 6 m langar leysingarstikurnar. Toppur stikunnar í gryfjunni var 5 cm undir yfirborði snævarins og fannst hún því eftir stutta leit. (Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson)

Hofs2

Kortið sýnir mælipunkta á Hofsjökli og ísasvið Nr. 1-18. Mælingar á Sátujökli miðast aðallega við ísasvið 10 og 11, á Þjórsárjökli við ísasvið 16 og 17 og á Blágnípujökli við ísasvið 5. Einnig er nú mælt í tveim punktum neðarlega á Blautukvíslarjökli (ísasvið 3). Þrír rauðlitaðir punktar við jaðar jökulsins eru nú aflagðir vegna hörfunar jökuljaðars. Gulleitu ferlarnir sýna mörk vatnasviða.

30 ára mæliröð

Afkoma ofangreindra ísasviða á Hofsjökli hefur nú verið mæld árlega í 30 ár og nýtast þau gögn einnig til að áætla afkomu alls jökulsins. Á árabilinu 1988–1993 skiptust á jákvæð ár og neikvæð, en á 21 árs tímabili 1994–2014 var afkoma neikvæð á hverju ári. Rýrnaði jökullinn þá að jafnaði um 1,2 m árlega. Jökulárið 2014–2015 var vetur snjóþungur og sumar svalt og bættist þá verulega á jökulinn, en árin 2015–2016 og 2016–2017 rýrnaði hann á ný. Afkomutölur eru gefnar upp í vatnsgildi, þ.e. þykkt vatnslags sem fram kæmi ef snjór og ís sem tapast (eða bætist við) væri bræddur og dreift jafnt yfir jökulinn.

Hofs3

Árleg afkoma jökuls (eða tiltekins svæðis innan hans) fæst með því að leggja saman ákomu vetrarins (með jákvæðu formerki) og leysingu sumarsins (með neikvæðu formerki). Reiknað er frá einni vetrarbyrjun til hinnar næstu og miðað við vatnsgildi í báðum tilvikum. Ef niðurstaðan er jákvæð tala hefur jökullinn vaxið að rúmmáli, en ef hún er neikvæð hefur jökullinn rýrnað á þessu tiltekna jökulári, sem kallað er. Á myndinni sést að afkoma Hofsjökuls hefur fimm sinnum verið jákvæð frá 1988 en neikvæð hin 26 árin.

Dæmið er raunar flóknara en svo að einungis verði ákoma snævar að vetri og einungis leysing íss og snævar að sumri, því leysing getur orðið á hlýindaköflum innan vetrartímans auk þess sem oft snjóar á jökul að sumarlagi, einkum ofantil. Er því frekar talað um afkomu vetrar og sumars og svo ársafkomu, sem fæst með því að leggja saman vetrarafkomu og sumarafkomu. Afkomutölur eru gefnar upp í vatnsgildi, þ.e. þykkt vatnslags sem fram kæmi ef snjór og ís sem tapast (eða bætist við) væri bræddur og dreift jafnt yfir jökulinn.

Vetrarafkoma

Við mælingar í vorferð í apríllok 2018 kom í ljós að vetrarsnjór var í minna lagi á Hofsjökli. Þá hófst samfelldur úrkomukafli um allt land og snjóaði verulega á jökulinn til maíloka. Ljóst var að vormælingar gæfu því ekki rétta mynd af vetrarafkomunni og þurfti að leita í smiðju veðurfræðinga til að reikna viðbótina í maí. Veðurlíkanið Harmonie er helsta spálíkan Veðurstofunnar og reiknar það úrkomu á 2.5x2.5 km reitum á öllu landinu og skiptingu hennar í regn og snjó, auk leysingar. Samkvæmt niðurstöðum úr líkaninu bættust víða 1–2 metrar snævar á Hofsjökul í maímánuði og nam sú viðbót 20–30% alls vetrarsnævar um sunnanverðan jökulinn en minna að norðanverðu. Vatnsgildi vetrarafkomu einstakra ísasviða nam að jafnaði 1.8 m og snjóþykkt á jöklinum var því að jafnaði um 4 metrar í maílok.

Sumarafkoma

Á leysingarsvæði jökulsins bráðnar fyrst vetrarsnjórinn en síðan tekur við leysing jökulíss þar undir og getur hún numið 3–5 metrum af ís neðan við 1000 m hæð á jöklinum. Á ákomusvæðinu rennur bræðsluvatn úr vetrarlaginu og snjórinn sjatnar. Við það lækkar yfirborðið víða um 1–2 metra auk þess sem eðlisþyngdin eykst um u.þ.b. 30%. Afgangur verður þó að hausti ofan jafnvægislínu og efst á jöklinum snjóar yfirleitt talsvert um sumarið og sumarafkoman verður þar jákvæð. Að jafnaði mældist vatnsgildi sumarafkomu nú um –1,4 m (vatnsgildi).

Ársafkoma

Nú má gera dæmið upp: Ársafkoma = Vetrarafkoma + Sumarafkoma= 1,8 + (–1,4) = +0,4 metrar. Þetta er þó ekki endanleg tala því samanburðurvið rúmmálsbreytingar jökulsins frá 1986, sem reiknaðar hafa verið út fráhæðarlíkönum, bendir til að hinar árlegu stikumælingar vanmeti rýrnunjökulsins. Helsta ástæðan er sú tilviljun að sumar stikur hafa frá upphafiverið staðsettar þar sem snjósöfnun er tiltölulega mikil og vetrarafkoman þvíofmetin. Sjá umfjöllun í þessari skýrslu. Að leiðréttingu lokinni er niðurstaðan sú að afkoma Hofsjökuls2017–2018 hafi verið +0.1 m, þ.e.lítillega jákvæð. Óvissa í endanlegri tölu nemur þó um ±0,2 m þannig að jökullinnvar mjög nærri jafnvægi þetta árið.

Jákvæð afkoma hefur mælst tvö af síðustu fjórum árum

Þegar tillit var tekið til áðurnefndrar viðbótarsnjókomu í maí reyndist vetrarákoma um 16% umfram 30-ára meðaltal á Hofsjökli og hlutfallslega meiri á honum sunnanverðum en að norðanverðu. Sumarleysing á Hofsjökli reyndist að jafnaði tæplega 2/3 af meðaltali árabilsins 1988–2017 og kom það ekki á óvart því sumarið var fremur svalt. Á Hveravöllum var t.d. meðalhiti sumarsins 0,7°C lægri en meðaltalið 1988–2017 og 1,1°C lægri en meðaltalið 2008–2017. Jákvæð afkoma hefur mælst tvö af síðustu fjórum árum og er ljóst að nokkurt lát hefur orðið á hinni miklu rýrnun sem hófst eftir 1994.

Hofs4

Línuritið sýnir samhengi milli sumarafkomu Sátujökuls og meðalsumarhita á Hveravöllum á tímabilinu 1988–2017. Má af því ráða að 1°C lækkun meðalsumarhita (maí–sept.) leiði til þess að leysing minnki um tæplega 0,5 m að vatnsgildi og bæti að sama skapi við ársafkomu.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica