Fréttir
Frá Svínafellsjökli

Mælibúnaði komið upp við Svínafellsjökul

6.7.2018

Í dag var settur upp hluti þess mælibúnaðar sem áætlað er að koma upp við sprungu í Svínafellsheiði ofan Svínafellsjökuls. Þar er óttast að framhlaup geti orðið og talið er mikilvægt að vakta svæðið, m.a. með síritandi mælibúnaði. Farinn var leiðangur á vegum Veðurstofunnar og Háskóla Íslands og einnig aðstoðaði starfsfólk frá Vatnajökulsþjóðgarði og Íslenskum fjallaleiðsögumönnum við uppsetninguna. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar veitti ómetanlega aðstoð, enda þurfti að koma þungum búnaði upp á heiðina. 

Eftirfarandi var gert í leiðangrinum:

  • Tveimur síritandi GPS stöðvum var komið fyrir á Svínafellsheiði.
  • Búnaður til rafmagnsframleiðsu; vindrafstöðvar og sólarsellur, ásamt samskiptabúnaði var settur upp hjá GPS stöðvunum og mun þjóna þeim mælitækjum sem sett verða upp í framtíðinni.
  • Föstum fjórfæti var komið upp á Hafrafelli, norðan Svínafellsjökuls. Fjórfóturinn er notaður sem undirstöður fyrir TLS leysitæki, sem notað er til að búa til mjög nákvæmt landlíkan. Einnig var leysitækið flutt upp og fyrsta mæling gerð af svæðinu sem er á hreyfingu hinum megin við jökulinn. Áætlað er að mæla hlíðina reglulega til þess að sjá hvernig svæðið neðan við sprungurnar hreyfist.
  • Speglum var komið upp við Svínafellsheiði sem þjóna þeim tilgangi að vera viðmiðunarpunktar fyrir TLS tækið. 
  • Gerð var tilraun til að moka niður að mælistað í sprungunni þar sem koparnöglum hefur verið komið fyrir til þess að mæla gliðnunina milli ára. Það tókst ekki, enda er efri hluti sprungunnar í lægð þar sem ennþá er talsverður snjór. 
  • Haldið var áfram að skoða og kortleggja sprungurnar.


Næstu skref eru að koma upp samfelldri úrvinnslu á GPS gögnunum, sem verða síðan vöktuð af Veðurstofu Íslands.  

Seinna í sumar, þegar snjóa hefur leyst af efsta hluta sprungunnar, er áætlað að setja upp síritandi togmæla í sprunguna og einnig að mæla gliðnunina handvirkt. Mögulega verður jarðskjálftamæli einnig komið fyrir.

Einnig er verið að gera nýja greiningu á svokölluðum InSAR gervitunglagögnum frá hausti 2017 og fram til dagsins í dag. Slík gögn voru skoðuð frá hausti 2016 til hausts 2017 sem sýndi að allt svæðið neðan við sprungurnar á Svínafellheiði var á hreyfingu. Þegar ný greining kemur ætti að sjást hvort hreyfingin hafi hert á sér á milli ára eða ekki.

Minnt er á að Almannavarnir hafa varað við ferðum á Svínafellsjökul við þessar aðstæður og ferðalangar eru hvattir til þess að staldra stutt við á útsýnisstöðum við sporð jökulsins. 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica