Fréttir
árfarvegur
Upptök Jökulsár á Fjöllum við austanverðan Vatnajökul.

Jarðhitavatn í Jökulsá á Fjöllum kemur undan Dyngjujökli

13.11.2017

Vísindamenn frá Jarðvísindastofnun, Almannavörnum og Veðurstofunni hittust í dag, 13. nóvember, og fóru yfir stöðu mála vegna jarðhitavatns í Jökulsá á Fjöllum. Ljósmyndir sem teknar voru úr flugvél í gær (12. nóvember) sýna engin sérstök merki um að aukið rennsli jarðhitavatns komi úr Gengissigi í Kverkfjöllum.

Á ljósmyndunum sést að töluvert vatn kemur undan Dyngjujökli í hefðbundinn farveg Jökulsár á Fjöllum vestan Kverkfjalla. Sennilegt er því að jarðhitavatnið sem mælst hefur undanfarnar vikur eigi upptök vestar í Vatnajökli, hugsanlega í Bárðarbungu þar sem jarðhiti hefur aukist undanfarin misseri. Leiðnimælingar sýna að jarðhitavatn kemur enn fram í Jökulsá en vísbendingar eru um að það fari heldur minnkandi.

Ekki er að sjá breytingar í jarðskjálftavirkni í norðanverðum Vatnajökli samhliða útrennsli jarðhitavatnsins. Frekari mælingar til að finna uppruna vatnsins verða gerðar við fyrsta tækifæri.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica