Fréttir
Hoffellsjökull í Hornafirði

Jöklar á Íslandi rýrna enn

20.4.2018

Afkoma íslensku jöklanna hefur verið neikvæð síðan 1995 með einni undantekningu, afkoma ársins 2015 var jákvæð í fyrsta sinn í 20 ár. Árið 2016 mældist afkoman aftur neikvæð eins og flest undanfarin ár og einnig fyrir Langjökul og Hofsjökul árið 2017 en Vatnajökull var þá nærri því að vera í jafnvægi. Jöklarnir hafa alls tapað um 250 km3 íss síðan 1995 sem er um 7% af heildarrúmmáli þeirra.

Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi á vegum verkefnisins „Hörfandi jöklar: Lifandi kennslustofa í loftslagsbreytingum“ sem er hluti af sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Fréttabréfið er samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Jöklarannsóknafélags Íslands, Náttúrustofu Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarðs.

Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í rúma tvo áratugi og er rýrnun þeirra einhver helsta afleiðing hlýnandi loftslags hérlendis og skýr vitnisburður um hlýnunina. Á árinu 2017 hopuðu jökulsporðar víða um tugi metra. Af þeim jöklum sem mældir eru af félögum í Jöklarannsóknafélagi Íslands hopuðu Kaldalónsjökull í Drangajökli og Hagafellsjökull eystri í Langjökli mest, eða 100–200 m. Hraðast hörfar Breiðamerkurjökull þar sem kelfir af honum í Jökulsárlón, milli 200 og 300 m árlega.

Rýrnun íslenskra jökla er hvað sýnilegust við sunnanverðan Vatnajökul. Sem dæmi hefur flatarmál Hoffellsjökuls í Hornafirði minnkað um tæplega 40 km2 síðan um aldamótin 1900, en það er nánast til jafns við flatarmál Mývatns. Hörfun jökulsins hefur leitt til myndunar lóns við sporðinn sem hefur stækkað hratt síðan það byrjaði að myndast um 2010. Flatarmál Hoffellsjökuls hefur minnkað um rúmlega 0.5 km2 á ári að meðaltali síðustu árin.



Flugsýn af tungu Hoffellsjökuls 1982 og 2017. Myndirnar byggja á ljósmyndum sem teknar voru úr flugvél 1982 og flygildi 2017 og sýna vel myndun jaðarlónsins og lækkun yfirborðs jökulsins á 35 ára tímabili. (Myndvinnsla Kieran Baxter.)






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica