Fréttir
Grímsfjall, séð frá íshellu Grímsvatna.

Lítið jökulhlaup í Gígjukvísl

Engin hætta á ferðum

23.8.2016

Lítið jökulhlaup er nú í Gígjukvísl á Skeiðarársandi. Hlaupið á upptök í Grímsvötnum en þar sem lítið hafði safnast þar af bræðsluvatni frá síðasta hlaupi í mars 2015 er aðeins um minni háttar atburð að ræða og engin hætta er á ferðum.

Við reglubundna vöktun á Veðurstofunni varð vart við skjálftaóróa á mæli á Grímsfjalli 19. ágúst. Sá órói hélst nokkuð stöðugur í um sólarhring en svo dró úr honum. Mánudaginn 22. ágúst bárust svo þær upplýsingar frá Jarðvísindastofnun Háskólans að íshellan í Grímsvötnum væri tekin að lækka skv. gögnum úr mælistöð á íshellunni og hlaup hefði líklega hafist 18. ágúst.

Sérfræðingar Jarðvísindastofnunar hafa fylgst með hæðarbreytingum íshellunnar um áratuga skeið og þar sem botn Grímsvatnaöskjunnar hefur verið kortlagður, og þykkt og lögun íshellunnar er vel þekkt, má áætla vatnsmagnið í lóninu undir hellunni út frá mælingum á hæð íshellunnar. Lækkunin 18.-22. ágúst nam 5 metrum og ef sig hellunnar heldur áfram með svipuðum hraða munu Grímsvötn tæmast í þessari viku. Sérfræðingar JH áætla að um 0,1 - 0,15 rúmkílómetrar vatns hafi verið í vötnunum við upphaf hlaupsins og er því ljóst að hlaup þetta verður á við minni Skaftárhlaup að stærð.

Yfir Grímsvötnum
Flugsýn yfir Grímsvötn úr NNV. Hæð öskjunnar er um 1400 m en hæsti punktur Grímsfjalls er 1725 m y.s. og þar standa skálar Jöklarannsóknafélagsins. Þykkt íshellunnar nær sums staðar yfir 200 m en hún þynnist mjög er nær dregur fjallinu. Lónið undir hellunni safnar í sig bræðsluvatni og náði stærð þess 25 ferkílómetrar fyrr á árum en er nú mun minna. Hámarksdýpt lónsins milli hlaupa hefur nú minnkað úr 150 m í um 30 m. Ljósmyndari óþekktur (upplýsingar óskast).

Grímsvatnahlaup komu áður fram í Skeiðará og á tímabilinu 1940 - 1996 voru hlaupin allstór. Heildarrúmmál vatns sem hljóp var þá nálægt 1 km³ og hámarksrennsli Skeiðarár í hlaupunum 5-10.000 m³/s. Eftir Gjálpargosið 1996 og stórhlaupið í kjölfar þess minnkuðu Grímsvatnahlaup til muna og árið 2009 varð sú breyting vegna hörfunar Skeiðarárjökuls að vatn, sem áður rann í farvegi Skeiðarár, tók að renna vestur með Skeiðarárjökli og síðan í farveg Gígjukvíslar.

Vatnshæðarmælir V159 á brúnni yfir Gígjukvísl sýnir hægt vaxandi rennsli frá 20. ágúst og eftir að leiðniskynjari í ánni var tekinn upp og hreinsaður mælist rafleiðni yfir 250 míkrósímens/cm. Svo hátt gildi er venjulega merki þess að jarðhitavökvi hafi blandast í leysingarvatnið í ánni.

Starfsmenn Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar fylgjast áfram með framvindu mála við Gígjukvísl og í Grímsvötnum.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica