Fréttir
Fjöldi vísindamenn frá mörgum löndum koma og kynna niðurstöður rannsókna sinna frá Norðurlandi.
Fjöldi vísindamenn frá mörgum löndum koma og kynna niðurstöður rannsókna sinna frá Norðurlandi.

Northquake ráðstefnan haldin í þriðja sinn á Húsavík

Umfangsmiklar jarðskjálftaæfingar haldnar í aðdraganda ráðstefnunnar

24.5.2019

Hópur alþjóðlegra vísindamanna situr nú Northquake 2019 ráðstefnuna sem haldin er á Húsavík. Markmið ráðstefnunnar er að fá yfirlit yfir nýjustu rannsóknir á jarðskjálftum á Norðurlandi, orsökum þeirra, eðli, áhrifum og ennfremur kynna hagnýtingu rannsóknarniðurstaðna. Ráðstefnunni lýkur í dag með opnum fundi fyrir íbúa frá kl.12-13. 

Viðbragðsáætlanir fyrir stóran jarðskjálfta æfðar í aðdraganda ráðstefnunnar

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár á Veðurstofunni fór fyrir hópi þeirra sem skipulagði tvær jarðskjálftaæfingar, annars vegar fyrir hrinu jarðskjálfta og hinsvegar fyrir stóran jarðskjálfta með upptök í nágrenni Húsavíkur. Æfingin var svokölluð "skrifborðsæfing" en í henni tóku þátt sérfræðingar á Veðurstofunni, fulltrúar Almannavarna í norðausturkjördæmi og í Reykjavík, ásamt fulltrúum Vegagerðarinnar og Náttúruhamfaratrygginga Íslands. Kristín segir að æfingin hafi heppnast vel og sýnt að þrátt fyrir umtalsverða óvissu í kringum hvenær og hvar jarðskjálftar verða og hverjar afleiðingar þeirra verða, geta viðbragðsáætlanir náð yfir nauðsynlegar aðgerðir í jarðskjálftahrinum og kjölfar stórra jarðskjálfta. „En það er engu að síður mikilvægt að íbúar á jarðskjálftasvæðum séu meðvitaðir um hættuna og kynni sér viðbrögð við jarðskjálfta, en ekki síst ýmsar gagnlegar varnir og viðbúnað sem Almannavarnir mæla með. Ráðstefna eins og þessi sem nú er haldin á Húsavík, er ekki síst liður í því“, segir Kristín.

(F.v.) Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár á Veðurstofunni ásamt þeim Halldóri Geirssyni hjá Jarðvísindastofnun Háskólans og Sigurjóni Jónssyni, prófessor í jarðeðlisfræði við King Abdullah University of Science and Technology í Saudi-Arabíu. Sigurjón og Kristín eru í hópi skipuleggjenda ráðstefnunnar ásamt þeim Benedikt Halldórssyni, jarðskjálftaverkfræðingi á Veðurstofunni, Páli Einarssyni jarðeðlisfræðingi við Jarðvísindastofnun Háskólans og Ragnari Stefánssyni jarðskjálftafræðingi. (Ljósmynd: Benedikt Halldórsson)

(F.v.) Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár á Veðurstofunni ásamt þeim Halldóri Geirssyni hjá Jarðvísindastofnun Háskólans og Sigurjóni Jónssyni, prófessor í jarðeðlisfræði við King Abdullah University of Science and Technology í Saudi-Arabíu. Sigurjón og Kristín eru í hópi skipuleggjenda ráðstefnunnar ásamt þeim Benedikt Halldórssyni, jarðskjálftaverkfræðingi á Veðurstofunni, Páli Einarssyni jarðeðlisfræðingi við Jarðvísindastofnun Háskólans og Ragnari Stefánssyni jarðskjálftafræðingi. (Ljósmynd: Benedikt Halldórsson)

Stöðug smáskjálftavirkni áminning um jarðskjálftavá á Norðurlandi

Þetta er í þriðja sinn sem Northquake ráðstefnan er haldin á Húsavík og byggir hún á ráðstefnum sama efnis 2013 þar sem vísindamenn frá mörgum löndum koma og kynna niðurstöður rannsókna sinna frá Norðurlandi. Rúmlega 40 ár eru liðin frá síðasta stórskjálfta (stærð 6 til 7) á Norðurlandi og er það lengsta hlé á milli slíkra atburða á svæðinu í hart nær 200 ár. Frásagnir og gögn um stóra jarðskjálfta, t.d. nálægt Kópaskeri 1976, í mynni Skagafjarðar 1963 og við Dalvík 1934, gefa okkur hugmynd um hvers má vænta á næstu áratugum. Þessir stóru skjálftar og stöðug smáskjálftavirkni úti fyrir Norðurlandi á svæði sem oft er kallað Tjörnesbrotabeltið er áminning til vísindamanna og yfirvalda um að jarðskjálftavá á Norðurlandi er mikil og ámóta þeirri vá sem er á Suðurlandsundirlendinu.

Harpa Grímsdóttir fagstjóri ofanflóðavár á Veðurstofunni flutti erindi á ráðstefnunni Northquake 2019 sem nú stendur yfir á Húsavík. Kristín Jónsdóttir, Benedikt Halldórsson og Angel Ruiz-Angulo eru einnig meðal fulltrúar Veðurstofunnar sem halda erindi. (Ljósmynd: Benedikt Halldórsson)

Harpa Grímsdóttir fagstjóri ofanflóðavár á Veðurstofunni flutti erindi á ráðstefnunni Northquake 2019 sem nú stendur yfir á Húsavík. Kristín Jónsdóttir, Benedikt Halldórsson og Angel Ruiz-Angulo evoru einnig meðal fulltrúar Veðurstofunnar sem héldu erindi. (Ljósmynd: Benedikt Halldórsson)





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica