Fréttir
Þoka á Látrabjargi
Þoka yfir Látrabjargi.

Tíðarfar í júlí 2008

- stutt yfirlit

1.8.2008

Mjög hlýtt var í júlímánuði, sérstaklega síðustu 10 dagana, og voru þá hitamet slegin víða um land. Góðviðrasamt var í mánuðinum.

Meðalhitinn í Reykjavík mældist 12,5 stig og er það 1,9 stigum ofan meðallags. Mánuðurinn er í hópi hlýrri júlímánaða, lenti í 7. sæti frá upphafi samfelldra mælinga 1871. Lítillega hlýrra var í júlí í fyrra og júlímánuður 1991 var nokkru hlýrri en nú.

Á Akureyri var meðalhitinn 12,4 stig og er það einnig 1,9 stigum ofan meðallags. Þar var hlýrra í júlí 2004 og mjög margir júlímánuðir aðrir hlýrri.

Á Hveravöllum mældist meðalhitinn 10,1 stig og er það 3,1 stigi ofan meðallags. Mælingar hófust á Hveravöllum 1965 og er það aðeins júlí 1991 sem var lítillega hlýrri en nú.

Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 11,3 stig eða 0,9 stig yfir meðallagi.

Í Stykkishólmi mældist meðalhitinn 12,0 stig og er það 2,1 stigi ofan meðallags og júlíhitinn í ár í 3. til 4. sæti frá upphafi mælinga í Stykkishólmi 1845. Ofar eru júlí 1880 og 1933 en jafnhlýtt var í júlí 1908.

Í Bolungarvík var meðalhitinn 11,2 stig og er það 2,2 stigum ofan meðallags. Ívíð hlýrra var þar í júlí 2004.

Á Egilsstöðum var meðahlitinn 11,8 stig, 1,5 stigum ofan meðallags.

Á Dalatanga var meðalhitinn 9,4 stig, einnig 1,5 stigum ofan meðallags og hlýjast frá 1999, en 2005 var ámóta hiti og nú.

Úrkoma í Reykjavík mældist 51 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 55 mm og er það 17% umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 98 mm, en það er 40% umfram meðallag.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 198 og er það 27 fleiri en í meðalári. Aðeins tvisvar hefur það gerst áður að sólskinsstundir hafi verið jafnmargar í júní og júlí samanlagt, það var 1939 og 1928.

Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 206, eða 48 umfram meðallag.

Maí til júlí

Hiti hefur verið óvenjulegur um sunnan- og vestanvert landið í mánuðunum maí til júlí og í Reykjavík hafa þessir þrír mánuðir samtals verið þeir hlýjustu frá upphafi mælinga, en munur á sömu mánuðum 1933, 1939 og 1941 og nú er þó varla marktækur. Í Stykkishólmi er það aðeins í maí til júlí 1933 sem var hlýrra en nú. Þar hefur verið mælt í yfir 160 ár.

Hitabylgja

Óvenjulega hitabylgju gerði síðari hluta mánaðarins og hitamet voru sett allvíða. M.a. mældist hiti á Þingvöllum 29,7 stig þann 30. Það er hæsti hiti sem mælst hefur á staðlaðri sjálfvirkri stöð hér á landi frá upphafi slíkra mælinga.

Nýtt met var einnig sett í Reykjavík sama dag þegar hitinn á mönnuðu stöðinni fór í 25,7 stig og 26,4 stig á þeirri sjálfvirku. Hvoru tveggja er nýtt met. Mönnuð stöð hefur verið í Reykjavík samfellt frá 1870, en hámarksmælingar eru ekki til frá öllum þeim tíma. Líklegt er þó að nýja talan sé hærri en annars hefur orðið á öllu þessu tímabili.

Nýtt hitamet var einnig sett á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (21,6 stig) en þar hefur verið mælt samfellt frá 1921 og á Hólum í Dýrafirði (26,0 stig) en þar hefur verið mælt frá 1983. Meiri hiti hefur heldur ekki mælst á Höfn í Hornafirði en nú (22,8 stig), en stöðin hefur ekki verið samfellt þar í bænum, en hiti mældist 1,7 stigum hærri í Akurnesi í sömu sveit í hitabylgjunni miklu 2004.

Frekari upplýsingar og töflur yfir hitamet má finna í fróðleikspistli.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica