Fréttir
glampar á vatnspoll

Óvenjulöng vetrarhláka

Lengsta janúarhlákan

29.1.2010

Frost mældist ekki í Reykjavík á tímabilinu 8. janúar til 28. janúar eða tuttugu og einn dag samfellt.

Þetta er mjög óvenjulegt um miðjan vetur og hefur ekki gerst í janúar á þeim tíma sem samfelldar lágmarksmælingar hafa staðið í Reykjavík, frá 1920. Veðurstofan hefur undanfarna daga fengið spurningar um það hversu óvenjulegt þetta er og hér er leitast við að svara því:

Samfelldar lágmarkshitamælingar hafa verið gerðar í Reykjavík frá stofnun Veðurstofunnar, 1920. Frá 1885 til 1907 voru mælingar nokkuð stopular og hefur það tímabil ekki verið athugað að þessu sinni. Engar lágmarksmælingar voru í Reykjavík frá 1907 til 1919.

Á þessu 90 ára tímabili frá 1920 hefur hláka 10 sinnum staðið í meira en 10 daga. Lengstu janúarhlákurnar fram til þessa voru 17 daga langar, enduðu 6. janúar 1938 og 14. janúar 1972. Þriðja lengsta hlákan til þessa var í fyrra (2009) eða 15 dagar. Lengsta febrúarhlákan á tímabilinu var 22 daga löng, endaði 29. febrúar 1964, og lengsta marshlákan endaði 6. mars 1929, einnig 22 daga löng. Enn lengri hláku (25 daga) gerði eftir 6. mars 1929, en henn var ekki formlega lokið fyrr en 1. apríl samkvæmt þeim talningaraðferðum sem hér er beitt, 26. daga hláku lauk 4. apríl 1923.

Veturnir 1929 og 1964 voru fádæma mildir. Árið 1847 fór hiti ekki undir frostmark í Reykjavík frá 23. febrúar til 30. mars. Sá vetur er almennt talinn hlýjasti vetur nítjándu aldar.

Hvað varðar veturinn 1929, er bent á yfirlit Níelsar Jónssonar á Grænhóli á Ströndum og lesa má um í sérstakri fróðleiksgrein.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica