Fréttir
skriða: björg
Björg fylgdu jökulíshlaupi sem féll yfir Gígjökul við upphaf eldgoss í Eyjafjallajökli.

Jökulíshlaup í upphafi goss

27.5.2010

Eins og vitað er, þá liggur gosið í Eyjafjallajökli niðri og vonandi er því lokið. Gufu leggur enn frá gosstöðvunum en engin aska hefur sést í henni undanfarna daga.

Daginn eftir að gosið hófst, eða að kvöldi 15. apríl 2010, kom mikið hlaup niður Gígjökul. Vatnshæð við gömlu Markarfljótsbrúna hækkaði um 2,12 m frá kl. 19:58 til kl. 20:15 en það er mjög brött flóðalda. Á leiðinni náði flóðaldan um eða yfir 20 km hraða á klukkustund.

Þegar flogið var yfir hlaupið sást skriðuurð í hlíðinni austan við Gígjökul, nokkuð hátt uppi í hlíðinni í svipaðri hæð og þar sem halli jökulsins eykst niður að lóninu sem var. Þetta efni hafði kastast yfir hrygginn austan jökulsins og barst síðan niður bratta hlíðina og stöðvaðist neðarlega í brekkunni, að mestu áður en kom niður á jafnsléttu.

Strax og öskugosi var lokið í Eyjafjallajökli, eða þann 23. maí 2010, fóru nokkrir vísindamenn að kanna þessa urð.

Í ljós kom nokkur hundruð þúsund rúmmetra jökulíshlaup, þ.e. tungan er að mestu ískurl og hjarn sem er þakið gjósku og blandað gjósku, sandi og urð. Neðan við tunguna var stórt bjarg sem borist hafði með henni og ofan á henni fjölmörg minni. Tungan er um 500 m löng og um 100 m breið. Þykktin virðist víða um eða yfir 5 m.

Ljósmyndir úr könnunarleiðangrinum eru sérstakri grein. Kortið hér undir sýnir útlínur Gígjökuls í hvítum lit en útlínur jökulíshlaupsins í rauðum lit.

Jökulíshlaup
kort af skriðu
Norður úr Eyjafjallajökli liggur skriðjökullinn Gígjökull. Hvítt: útlínur Gígjökuls árið 2000. Rautt: útlínur jökulíshlaups úr Gígjökli sem féll 15. apríl 2010. Mæling: Tómas Jóhannesson. Kort: Bogi Brynjar Björnsson.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica