Fréttir
Góðviðrisbólstrar yfir Baulu.

Tíðarfar í júní 2013

Stutt yfirlit

1.7.2013

 Hlýtt var í júní og tíðarfar telst hagstætt að því undanskildu að sólarlítið var um landið suðvestanvert og úrkoma þar yfir meðallagi. Þurrt var um landið norðan- og austanvert.

Hiti

Meðalhiti mældist 9,9 stig í Reykjavík. Er það 0,9 stigum ofan meðaltals áranna 1961 til 1990 en 0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu júnímánaða. Júní 2011 var þó kaldari en nú. Óvenjuhlýtt var á Akureyri, meðahitinn mældist 11,4 stig og hefur ekki verið svo hár í júní síðan 1953, eða í 60 ár. Frá því að samfelldar mælingar hófust á Akureyri 1881 hefur meðalhiti í júní verið hærri aðeins fimm sinnum. Einnig var óvenjuhlýtt um landið austanvert sem og á hálendinu. Meðalhiti á Höfn í Hornafirði mældist 10,1 stig og 7,3 á Hveravöllum.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 9,9 0,9 39 til 40 143
Stykkishólmur 9,7 1,6 13 168
Bolungarvík 9,6 2,5 10 116
Akureyri 11,4 2,3 6 132
Egilsstaðir 10,7 2,0 5 59
Dalatangi 8,3 2,1 4 75
Teigarhorn 8,9 1,7 6 141
Höfn í Hornaf. 10,1 0,0
Stórhöfði 8,4 0,4 67 til 68 136
Hveravellir  7,3 2,4 5 48
Árnes 10,2 1,0 13 [133]
Meðalhiti í júní 2013, vik frá meðallagi áranna 1961 til 1990 og staða hitans í röð frá hlýjasta til kaldasta júnímánaðar frá upphafi samfelldra mælinga á stöðinni.

 

Hæstur var meðalhiti mánaðarins á Torfum í Eyjafirði, 11,7 stig  og 11,4 á Akureyri. Lægstur var meðalhitinn á Brúarjökli 2,7 stig. Á láglendi var meðalhitinn lægstur í Seley, 6,6 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á sjálfvirku stöðinni á Skjaldþingsstöðum þann 10., 22,8 stig. Sama dag mældist mestur hiti á mönnuðu stöðinni á sama stað 21,5 stig og var það hæsti hiti sem mældist á mannaðri stöð í mánuðinum. Hiti á landinu komst í 20 stig átta daga mánaðarins.

Lægstur mældist hitinn -4,3 stig á Brúarjökli þann 2. Í byggð mældist hitinn lægstur á sjálfvirku stöðinni á Fáskrúðsfirði þann 17., -1,5 stig. Lægsta lágmark á mannaðri stöð mældist á Torfum þann 25., 0,1 stig. Frostlaust var í byggð 24 nætur.

Úrkoma

Úrkoma mældist 65,6 mm í Reykjavík í júní og er það 30 prósent umfram meðallag. Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meira voru 14 og eru það 3 umfram meðallag áranna 1961 til 1990, en 6 umfram meðalfjölda síðustu tíu ára. Úrkomudagar hafa ekki verið fleiri í júní í Reykjavík síðan 2003. Úrkoma á Akureyri mældist 8,1 mm og er það ríflegur fjórðungur meðalúrkomu í júní. Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri voru 4. Það er tveimur dögum minna en í meðalári.

Úrkoma mældist 40,3 mm í Stykkishólmi og er það í meðallagi, 61,6 mm á Höfn í Hornafirði og 107 mm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Það er í rétt rúmu meðallagi.

Þurrkmet voru sett á nokkrum stöðvum um landið norðaustan- og austanvert, en engin þeirra hefur athugað í meira en 20 ár.

Sólskin

Óvenjusólarlítið var í Reykjavík í júní. Sólskinsstundirnar mældust aðeins 121,7 og er það 40 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 90 stundum undir meðaltali júnímánaða síðustu tíu ára (2003 til 2012). Svo sólarlítið hefur ekki verið í júní í Reykjavík síðan 1995, en tíu sinnum hafa sólskinsstundir mánaðarins þó orðið færri frá upphafi samfelldra sólskinsmælinga í Reykjavík 1923.

Á Akureyri var hins vegar óvenjusólríkt. Sólskinsstundir mánaðarins mældust 260,6 og er það 84 stundum fleiri en í meðalári. Sólskinsstundir í júní hafa aðeins tvisvar mælst fleiri á Akureyri heldur en nú. Það var árið 2000, en þá voru sólskinsstundirnar 284, og 1982 en þá mældust 264 stundir, þremur fleiri en nú. Í fyrra, 2012, mældust sólskinsstundirnar nærri því jafnmargar og nú, eða 258,2.


Góðviðrisbólstrar yfir Skarðsheiði hinn 21. júní 2013. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði var lítillega undir meðallagi. Loftþrýstingur í Reykjavík var 0,9 hPa undir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist á Teigarhorni þann 5., 1028,8 hPa, en lægstur mældist hann á Gufuskálum þann 18., 989,3 hPa. 

Fyrstu sex mánuðir ársins

Hlýtt hefur verið fyrstu sex mánuði ársins, meðalhiti í Reykjavík þessa mánuði er 4,2 stig og er það 1,1 stig yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er 16. hlýjasti fyrri hluti árs frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík 1871. Á Akureyri er meðalhiti fyrstu sex mánaða árins 3,2 stig, eða 1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 0,1 stigi undir meðalhita síðustu tíu ára. Þetta er 21. hlýjasti fyrri hluti árs á Akureyri frá upphafi samfelldra mælinga þar 1881.

Í Reykjavík er úrkoma það sem af er ári um 9% yfir meðallagi, en í meðallagi á Akureyri. Sólskinsstundir það sem af er ári eru um 100 umfram meðallag í Reykjavík, en um 50 umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir júnímánuð

Þessa grein, Tíðarfar í júní 2013, má einnig lesa sem pdf-skjal (0,3 Mb).

Skoða má textaskjal, meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í júní 2013.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica