Fréttir
Í Skaftárdal. Stækkanleg. Mælaskýlið sést.
1 2

Flugkönnun Skaftárhlaupsins

2.10.2015

Starfsmenn Veðurstofunnar fóru könnunarferð yfir Skaftá fyrr í dag með þyrlu Landhelgisgæslunnar, auk þess sem farið var sérstakt ljósmyndaflug með Cessna-vél. Ekki var flugfært upp í Eystri Skaftárketil, sem er 40 km norðaustan útfallsins við jökulrönd. GPS stöðin í katlinum sýndi alls 74 m lækkun um hádegið og hætti þá að senda gögn.

Vatnið braust upp við jaðar Skaftárjökuls á venjulegum stað um 4 km norðaustan Langasjávar (mynd 1). Jökuljaðarinn hefur þar sumsstaðar brotnað upp. Starfsmenn Veðurstofunnar mældu hita hlaupvatns við útfallið í gær.

Undan jökli
""
Mynd 1. Hlaupvatn kemur undan Skaftárjökli. Ferðatíminn frá Eystri Skaftárkatli um 40 km leið undir jöklinum var um 4 sólarhringar við upphaf hlaupsins. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Þótt rennslið hafi náð hámarki við Sveinstind í nótt var enn mjög mikið hlaupvatn í ánni á þeim slóðum í dag og flæddi yfir allt svæðið suðaustan Fögrufjalla þar sem Skaftá rennur venjulega í kvíslum (mynd 2). Í gærkvöld og nótt braut áin svo mjög úr bökkum við mælahúsið undir Sveinstindi að Veðurstofumenn, sem þar höfðust við, færðu sig úr húsinu og tjölduðu hærra í landinu (sjá stækkanlegar myndir efst t.h.).

Flæmist að vild
""
Mynd 2. Hlaupið í fullum gangi suðaustan Fögrufjalla. Sveinstindur efst til hægri. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Um hádegi hafði vatn flætt að Hólaskjóli en ekki varð vart skemmda á húsum þar. Hlaupið virtist hafa náð hámarki ofarlega í Skaftárdal. Skemmdir hafa orðið á brúm að bænum Skaftárdal og einnig á vatnshæðarmælinum þar. Um hádegið var verulegt vatnsmagn komið í Eldhraun niður af Skaftárdal og vestan Kirkjubæjarklausturs. Nær vatnið að þjóðvegi 1 við Stóra og Litla Brest, 7-10 km austan við Ása (mynd 3). Þar fer hlaupvatn undir brú og um ræsi.

Í Eldhraun
""
Mynd 3. Hlaupvatnið komið í Eldhraun austan við Ása og vestan Kirkjubæjarklausturs. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Vatn tók að flæða framhjá varnargarði við bæinn Múla um hádegið og lækkaði þá vatnshæð í Eldvatni eins og sjá má á gögnum úr mælinum við Ása-Eldvatn. Skýrslan Vatnafar í Eldhrauni. Náttúrulegar breytingar og áhrif veitumannvirkja varpar ljósi á flókið samspil vatns og lands á þessu svæði.

Jöklafýlu leggur frá Skaftá ofarlega í farveginum og fara þarf að öllu með gát í nágrenni árinnar.

Vísindamannaráðsfundur

Á Vísindamannaráðsfundi kl. 15 í dag (2.okt.) kom fram að þótt hlaupið væri tekið að sjatna ofarlega í farveginum væri hlaupvatn að safnast upp í Eldhrauni og mjög líklegt er að það flæði yfir þjóðveg 1 í nótt. Búast má við áframhaldandi vatnselg þar um helgina og munu Almannavarnir og lögregla tilkynna um lokun vegarins ef nauðsyn ber til. Spáð er miklu úrhelli næstu daga og mun regnvatnið bætast við vatnselginn í hrauninu og hægja á lækkun vatnsstöðunnar á láglendi.

Varnargarðar
""
Varn­argarðar við Eldhraun. Flóðvatnið byrjað að flæða yfir bakkana. Ljósmynd: Matthew J. Roberts.
Þjóðvegur 1
""
Þarna sjást aðstæður við þjóðveginn eins og þær voru í dag. Ljósmynd: Matthew J. Roberts.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica