Fréttir
jökull
Öræfajökull.

Nýir jarðskjálftamælar við Öræfajökul

1.11.2017

Skjálftavirkni hefur aukist í Öræfajökli á undanförum mánuðum og hefur Veðurstofan brugðist við með því að efla eftirlit og bæta við mælistöðvum á svæðinu. Í síðustu viku settu starfsmenn Veðurstofunnar upp tvo nýja jarðskjálftamæla við Öræfajökul, við Háöxl (hox), suður af jöklinum, og við Kvísker (kvi), austan megin.

Fyrr í mánuðinum tók Veðurstofan í notkun skjálftamæli í eigu bresku jarðfræðistofnunarinnar BGS sem rekur mæli við Falljökul (fal), vestan við Öræfajökul. Jarðskjálftamælirinn, sem var settur upp til að rannsaka jöklaskjálfta, hefur nýst vel við að staðsetja jarðskjálfta í Öræfajökli síðan hann var tekinn í notkun.

Kort

Þrjár nýjar jarðskjálftamælastöðvar, fal, hox og kví, bæta eftirlit með Öræfajökli.

Þegar langtímabreytingar í skjálftavirkni eru skoðaðar kemur í ljós að virkni hefur aukist í Öræfajökli frá árinu 2016. Ennfremur varð nokkur aukning í skjálftavirkni í júní og frá og með september á þessu ári. Nýju stöðvarnar eru mikilvæg viðbót við þær stöðvar sem fyrir voru og auka næmi eftirlitskerfisins; bæði sjást nú minni jarðskjálftar (af stærð 0-1) og einnig batna skjálftastaðsetningar. Upplýsingar um skjálftana birtast á vef Veðurstofunnar. Töluverð óvissa er um dýpi skjálftanna, en þeir hafa skýr bylgjuform og eiga sér upptök í skorpunni á nokkurra kílómetra dýpi.

Sérfræðingar Veðurstofunnar sátu fund 17. október með samstarfsaðilum frá Jarðvísindastofnun Háskólans og fulltrúum Almannavarna Ríkislögreglustjóra þar sem farið var yfir mælingar og úrvinnslu aflögunarmælinga Jarðvísindastofnunar, bæði gervitungla-bylgjuvíxlmynda (InSAR) og GPS-mælinga. Aflögunarmælingarnar sýna landris á svæðinu frá árinu 2015 til 2017, meðal annars undir Öræfajökli, en ljóst er að búast má við að land rísi vegna jökulfargbreytinga á öllu Vatnajökulssvæðinu.

graf

Skjálftavirkni í Öræfajökli árið 2017. Efst er stærð hvers skjálfta teiknuð; næstefst er uppsafnaður fjöldi skjálfta; næstneðst er uppsöfnuð orkuútlausn en í byrjun október mældist skjálfti af stærð 3,5 sem er stærsti skjálfti í Öræfajökli frá upphafi mælinga á 10. áratugnum; neðst er dýpi skjálfta sýnt í kílómetrum.

Á grundvelli núverandi gagna og úrvinnslu er hins vegar ekki hægt að skera úr um hvort hluti þessarar hækkunar sé til kominn vegna kvikusöfnunar frekar en minnkandi jökulfargs, en ekki er hægt að útiloka það. Aflögunargögnin sýndu ekki greinanlega breytingu þegar jarðskjálftavirkni fór að aukast í júní og aftur í september á þessu ári.

Til stendur að efla vöktun í kringum Öræfajökul enn frekar í nóvember með fjölgun mælitækja svo sem GPS, vatnamælum og gasmælum.

maður og landslag

Steypt undir jarðskjálftamæli á Háöxl við Hvannadalshnjúk 24. október 2017. Ljósmynd: Þorgils Ingvarsson.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica