Fréttir
Á Hofsjökli
Leiðangursmenn á Hásteinum nálægt miðju Hofsjökuls.

Þrjátíu ára mæliröð vetrarákomu á Hofsjökul

24.5.2017

Starfsmenn Veðurstofu Íslands mældu vetrarákomu á Hofsjökul dagana 29.4. – 6.5. 2017. Að þessu sinni var um tímamótaleiðangur að ræða því nú var farið til mælinga á þykkt vetrarsnævar á jöklinum í þrítugasta sinn. Oft er miðað við 30 ára meðaltöl í veðurfars- og vatnafræðirannsóknum og einnig þegar kannaðar eru langtímabreytingar á afkomu jökla. Mæliröðin frá Hofsjökli er sú fyrsta hér á landi sem nær þeirri tímalengd og er þá átt við ársafkomuröðina reiknaða út frá vetrarákomu og sumarleysingu. Vetrarákoma í Grímsvötnum hefur hins vegar verið mæld á vegum Jöklarannsóknafélags Íslands síðan árið 1951.

Vatnamælingar Orkustofnunar hófu mælingarnar á Hofsjökli árið 1988 og fyrsta árið var eingöngu mælt á norðanverðum jöklinum, á ísasviði sem kennt er við Sátujökul og nær yfir tæp 10% af flatarmáli Hofsjökuls. Frá árinu 1989 hefur einnig verið mælt á Þjórsárjökli og Blágnípujökli og ná þessi þrjú ísasvið samtals yfir um 40% af flatarmáli jökulsins. Mælingarnar fluttust til Veðurstofu Íslands við sameiningu Veðurstofunnar og Vatnamælinga árið 2009.

Ísasvið

Ísasviðin þrjú á Hofsjökli, þar sem vetrar- og sumarafkoma hefur verið mæld í 3 áratugi. Mælipunktar eru sýndir. Flatarmál Blágnípujökuls er nú um 50 km2, Sátujökuls um 74 km2 og Þjórsárjökuls um 212 km2. Flatarmál Hofsjökuls alls er nú um 825 km2 en áætlað er að flatarmálið hafi verið rúmlega 1000 km2 við lok Litlu ísaldar um 1890.

Snjóalög voru að þessu sinni í meðallagi á jöklinum, mest á suðvesturhlutanum en minnst á honum norðanverðum. Snjólétt var norðan Hofsjökuls við vetrarlok, en allmikill snjór sunnan jökulsins, einkum kringum Kerlingarfjöll.

Vetrarafkoma á þrem ísasviðum á Hofsjökli vorið 2017 er sýnd í töflunni að neðan. Til samanburðar eru sýndar tölur síðustu tveggja ára og langtímameðaltalið.

  Meðaltal 1988-2017 2015 2016 2017
Blágnípujökull 1.9 m 2.4 m 1.5 m 1.9 m
Sátujökull 1.5 m 1.7 m 1.2 m 1.5 m
Þjórsárjökull 1.7 m 2.0 m 1.3 m 1.6 m

Til útreiknings á vetrarafkomu er snjódýpi fyrst mælt í völdum punktum innan viðkomandi ísasviðs. Eðlisþyngd snævarins er einnig mæld og má þá reikna vatnsgildið, þ.e. dýpi vatnslags sem dreift væri yfir svæði sem er jafnstórt ísasviðinu. Langtímameðaltalið nær yfir 30 ár fyrir Sátujökul en 29 ár fyrir hina jöklana tvo.

Snjóþykkt á Hofsjökli mælist oftast mest á hábungu jökulsins, sem er í 1792 m hæð. Línuritið fyrir neðan sýnir mæliröðina frá 1988. Snjóþykkt í vetrarlok hefur mælst á bilinu 5-8 metrar, að meðaltali 6,5 m. Mest mældist hún 8,1 m vorið 2012 en reyndist 6.9 m vorið 2017. Vatnsgildi vetrarákomunnar hefur að jafnaði verið um 3 metrar, þ.e. 3000 mm og þar sem einnig bætist á hábunguna að sumarlagi má áætla að árleg úrkoma á hábungu Hofsjökuls sé að jafnaði rúmlega 4000 mm (vatnsgildi). Til samanburðar er meðal-ársúrkoma á landinu öllu áætluð um 1600 mm.

Snjothykkt
30 ára mæliröð snjóþykktar í 1790 m hæð á hábungu Hofsjökuls. Jökullinn er fimmta hæsta fjall landsins á eftir Öræfajökli, Bárðarbungu, Kverkfjöllum og Snæfelli.

Frá upphafi hefur verið mælt í 25-30 punktum á svæðum sem örugg eru yfirferðar. Skafrenningur hefur áhrif á dreifingu snævar um jökulinn og á síðustu árum hefur fengist mun fyllri mynd af ákomudreifingunni með mælingu snjóþykktar á samfelldum sniðum með svokallaðri snjósjá. Tæki þetta er dregið á eftir vélsleða og mælir endurkast rafsegulbylgju frá neðra borði vetrarlagsins. Myndirnar að neðan sýna dæmi um þetta.

Snid-1
1800 m langt snjósjársnið frá leysingarsvæðinu á norðanverðum Hofsjökli, mælt að vori. Jökulís er undir snjólagi vetrarins og sést greinilegt endurkast frá ísnum á 1-2 m dýpi.

Snid-2
1800 m langt snjósjársnið frá ákomusvæðinu á hábungu Hofsjökuls, mælt að vori. Hér sést endurkast á 6-8 m dýpi frá skilum milli vetrarlags og eldra hjarnlags.

á Hofsjökli

Snjóþykkt mæld með kjarnaborun. Bergur Einarsson. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica