Fréttir
Horft út Arnarfjörð, 31. júlí 2016.

Tíðarfar í júlí 2016

Stutt yfirlit

2.8.2016

Tíð var talin sérlega hagstæð um landið sunnan- og vestanvert en nyrðra var hún daufari og jafnvel talin óhagstæð á stöku stað. Mánuðurinn telst þó veðragóður um land allt og lítið var um illviðri.

Úrkoma var með allra mesta móti sums staðar austast á landinu en víðast hvar nokkuð eða talsvert undir meðallagi vestanlands.

Sólskinsstundir voru vel yfir meðallagi suðvestanlands.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 12,5 stig, 1,9 stig ofan meðallags 1961 til 1990, og 0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 10,7 stig, 0,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,9 neðan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 11,0 stig.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalh. °C vik 1961-1990 röð af vik 2006-2015
Reykjavík 12,5 1,9 9 til 10 146 0,4
Stykkishólmur 11,0 1,1 36 til 37 171 -0,1
Bolungarvík 9,5 0,5 71 119 -0,9
Grímsey 8,5 1,0 48 143 -0,2
Akureyri 10,7 0,2 68 135 -0,9
Egilsstaðir 10,3 0,0 33 62 -0,3
Dalatangi 9,1 1,2 18 78 0,4
Teigarhorn 10,2 1,5 5 144 0,8
Höfn í Hornafirði 11,4       0,6
Stórhöfði 11,1 1,5 15 140 0,4
Hveravellir  8,2 1,2 21 51 -0,3
Árnes 12,5 1,7 19 137 0,3

Meðalhiti og vik (°C) í maí 2016

Að tiltölu var hlýjast syðst á Austfjörðum, í Papey var hiti +0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, og +0,8 stigum á Kambanesi og á Teigarhorni. Á síðastnefnda staðnum var mánuðurinn sá fimmti hlýjasti frá upphafi mælinga 1873. Kaldast að tiltölu var á Brúarjökli þar sem hitinn var -1,7 stigum lægri en að meðaltali í júlí síðustu tíu árin. Í byggð var kaldast að tiltölu á Gjögurflugvelli. Þar var hiti -1,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Reykjavíkurflugvelli, 12,6 stig, en lægstur 2,5 stig á Brúarjökli. Á láglendi var meðalhiti lægstur á Hornbjargsvita, 7,4 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -1,6 stig við Gæsafjöll þann 5. Mest frost í byggð mældist -0,7 stig á Brú á Jökuldal þann 7. Lægsta lágmark á mannaðri stöð mældist í Miðfjarðarnesi þann 6., -0,2 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 22,9 stig í Skaftafelli þann 26. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 21,6 stig á Eyrarbakka þann 27.

Úrkoma

Úrkoma var óvenjumikil allra nyrst á Austfjörðum, sums staðar á Héraði og í Vopnafirði; hefur t.d. ekki mælst meiri í júlí á Desjarmýri og á Skjaldþingsstöðum. Eins var úrkoma í mesta lagi á Ströndum. Aftur á móti var úrkoman með minnsta móti við sjávarsíðuna á Vesturlandi og hefur aðeins einu sinni mælst minni í júlí á Keflavíkurflugvelli.

Úrkoman í Reykjavík mældist 40,0 mm og er það 77 prósent af meðallagi áranna 1961 til 1990, minni úrkoma mældist í júlí í fyrra og eins árið 2012. Á Akureyri mældist úrkoman í júlí 37,6 mm, 14 prósent umfram meðalúrkomu. Í Stykkishólmi mældist úrkoman aðeins 16,5 mm og er það 39 prósent meðalúrkomu þar. Enn minni úrkoma mældist þó þar í fyrra og sömuleiðis í júlí 2010.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 9 í Reykjavík, einum færri en í meðalári. Úrkomudögum var mjög misdreift á mánuðinn í Reykjavík, sjö þessara níu daga komu í samfelldri röð, vikuna 20. til 26. Síðasta daginn féllu um 10,2 mm, það er fjórðungur mánaðarúrkomunnar á einni klukkustund. Þetta er ákafasta úrkoma sem mælst hefur á sjálfvirku stöðinni á Veðurstofutúni í júlímánuði í þau tæp 20 ár sem hún hefur verið starfrækt.

Á Akureyri mældist úrkoma 1 mm eða meiri 12 daga mánaðarins, 5 fleiri en í meðalmánuði. Enn fleiri slíkir dagar urðu í júlí 2014 en annars er óvenjulegt að þeir séu svona margir í júlímánuði. Í Stykkishólmi voru þeir dagar sem úrkoma mældist 1 mm eða fleiri aðeins 5, fjórum færri en í meðalári.

Úr Surtsey
Útsýni úr Surtsey til lands. Myndin er úr vefmyndavél Veðurstofunnar í Surtsey, 4. júlí 2016 kl. 18:58.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 239,5 eða 68 fleiri en í meðaljúlí áranna 1961 til 1990 og 41 fleiri en í meðaljúlí síðustu tíu ára. Síðast mældust þær jafnmargar eða fleiri í júlí 2009. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar aðeins 121,6 eða 37 færri en í meðalári 1961 til 1990 og 42 færri en að meðaltali síðustu tíu árin. Sólskinsstundirnar mældust þó mun færri á Akureyri í júlí í fyrra.

Vindur

Meðalvindhraði var um 0,3 m/s undir meðallagi síðustu 20 ára. Austlægar áttir voru mun tíðari en vestlægar og norðlægar áttir mun tíðari en suðlægar.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1010,3 hPa, 0,2 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990.

Hæstur mældist þrýstingurinn 1022,1 hPa í Bolungarvík og á Gjögurflugvelli þann 30., en lægstur á Teigarhorni þann 1., 994,0 hPa.

Fyrstu sjö mánuðir ársins

Í Reykjavík var hiti fyrstu sjö mánuði ársins +1,1 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990 en í meðallagi síðustu tíu ára. Í Reykjavík voru þessir mánuðir í fyrra talsvert kaldari en nú. Raðast hiti þessa tíma nú í 18. sæti af 146 í Reykjavík. Á Akureyri var hiti nú +0,7 stigum ofan meðallags sömu mánaða 1961 til 1990 en -0,5 undir meðallagi síðustu tíu ára og raðast í 43. sæti af 135. Fyrstu sjö mánuðir ársins í fyrra voru 0,5 stigum kaldari á Akureyri heldur en nú.

Úrkoma er um 83 prósent af meðallagi í Reykjavík en um 8 prósent umfram meðallag á Akureyri. Fyrstu sex mánuðir ársins 2010 voru nokkru þurrari í Reykjavík heldur en nú, en alls hafa ekki nema um 20 ár mælinga (af 119) átt sjö fyrstu mánuðina þurrari en nú. Úrkoma hefur verið mæld nær samfellt í Stykkishólmi frá hausti 1856 og hafa fyrstu sjö mánuðirnir 31 sinni verið þurrari en nú, síðast 2010.

Skjöl fyrir júlí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júlí 2016 (textaskjal)

Þessa grein, Tíðarfar í júlí 2016, er einnig hægt að sækja eða lesa sem pdf.

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica