Fréttir

Tíðarfar í júní 2018

Stutt yfirlit

3.7.2018


Mánuðurinn var óvenju þungbúinn um landið sunnan- og vestanvert. Sólskinsstundir í Reykjavík hafa ekki mælst eins fáar síðan árið 1914. Úrkoma var mikil í þessum landshlutum og veður fremur svalt. Á austanverðu landinu var aftur á móti hlýtt og sólríkt. Hiti fór þar margoft yfir 20 stig. Sunnan- og suðvestanáttir voru ríkjandi.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í júní var 8,7 stig, og er það -0,4 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Ekki hefur verið eins kalt í Reykjavík í júnímánuði síðan árið 1997. Á Akureyri var meðalhitinn 10,8 stig, 1,7 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 1,0 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 8,7 stig og 9,6 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2008-2017 °C
Reykjavík 8,7 -0,4 115 148 -1,7
Stykkishólmur 8,7 0,5 62 173 -0,8
Bolungarvík 8,1 1,1 47 til 48 121 -0,5
Grímsey 7,6 1,7 18 145 0,5
Akureyri 10,8 1,7 15 til 16 138 1,0
Egilsstaðir 10,6 1,9 9 64 1,6
Dalatangi 8,4 2,2 2 til 3 80 1,5
Teigarhorn 8,8 1,6 9 146 1,0
Höfn í Hornaf. 9,6


0,1
Stórhöfði 7,9 -0,1 104 til 105 142 -1,0
Hveravellir 6,3 1,4 16 54 -0,5
Árnes 9,3 0,1 86 138 -1,1

Meðalhiti og vik(°C) í júní 2018

Í júní var hlýtt að tiltölu á Norðaustur- og Austurlandi á meðan kalt var suðvestan- og vestanlands. Á mynd má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár. Þar má sjá hve skörp skil voru á milli landshluta í júní (líkt og var í maí). Sérlega hlýtt var á Austurlandi og fór hitinn þar margoft yfir 20 stig. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 3,3 stig á Eyjabökkum en neikvætt hitavik var mest á Hafnarmelum, - 1,8 stig.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í júní 2018 miðað við síðustu tíu ár

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Hallormsstað, 11,0 stig en lægstur á Þverfjalli, 2,8 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur á Hornbjargsvita, 6,9 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 24,2 stig á Neskaupsstað þ. 29. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 22,0 stig á Skjaldþingsstöðum þ. 29.

Mesta frost í mánuðinum mældist -4,7 stig á Brúarjökli þ. 17. Mest frost í byggð mældist -2,2 stig á Þingvöllum þ. 21.

Úrkoma

Úrkomusamt var suðvestan- og vestanlands.

Úrkoma í Reykjavík mældist 88,4 mm sem er um 75% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Aðeins sex sinnum áður hefur mælst eins mikil úrkoma í Reykjavík í júnímánuði, síðast árið 2014. Á Akureyri mældist úrkoman 34,3 mm, um 20% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 54,7 mm og 51,7 mm á Höfn.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 15 í Reykjavík, 4 fleiri en í meðalári. Alveg þurrir dagar voru aðeins 5 í Reykajvík og hafa aðeins tvisvar áður verið jafn fáir, árin 1960 og 1983. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 6 daga mánaðarins sem er í meðallagi.

Sólskinsstundafjöldi

Sérlega sólarlítið var í Reykjavík (og víðar um landið sunnan- og vestanvert) í júní. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 70,0 sem er 91 stund færri en að meðaltali 1961 til 1990. Ekki hafa mælst eins fáar sólskinsstundir í Reykjavík í júnímánuði síðan 1914, þegar stundirnar voru 65,6. Álíka fáar sólskinsstundir mældust í Reykjavík árið 1988 og nú, eða 72,2 stundir. Á Akureyri mældust 191,9 sólskinsstundir, 15 fleiri en í meðalári.

Vindur

Vindhraði á landsvísu var í meðallagi. Sunnanáttir voru ríkjandi. Hvassast var þ. 25 í suðvestanátt.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1012,9 hPa og er það 2,8 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1029,2 hPa á Höfn í Hornafirði þ. 28. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 982,2 hPa á Teigarhorni þ. 18.

Fyrstu sex mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sex mánuði ársins var 3,8 stig, sem er 0,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 35. til 36. sæti á lista 148 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 3,6 stig, sem er 1,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast þar í 11. sæti á lista 138 ára. Úrkoma hefur verið um 50% umfram meðallag í Reykjavík og um 15% umfram meðallag á Akureyri.  

Skjöl fyrir júní

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júní 2018 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægtsækja í sérstaka töflu.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica