Fréttir

Tíðarfar í september 2018

Stutt yfirlit

2.10.2018


September var fremur kaldur á landinu öllu. Hiti var vel undir meðallagi síðustu tíu ára en nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Norðanáttir voru tíðar um miðjan mánuðinn með bjartviðri suðvestanlands en úrkomu á Norðausturlandi. 

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í september var 7,1 stig, og er það -0,2 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 7,0 stig, 0,6 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -1,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 7,0 stig og 7,8 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2008-2017 °C
Reykjavík 7,1 -0,2 100 148 -1,7
Stykkishólmur 7,0 0,2 104 til 105 173 -1,6
Bolungarvík 5,9 -0,2 88 121 -2,1
Grímsey 6,0 0,7 66 145 -1,6
Akureyri 7,0 0,6 72 138 -1,6
Egilsstaðir 6,9 0,7 34 64 -1,6
Dalatangi 7,4 0,8 38 til 39 81 -1,2
Teigarhorn 7,5 0,6 64 til 65 146 -1,2
Höfn í Hornaf. 7,8


-1,2
Stórhöfði 7,4 0,0 91 til 92 142 -1,4
Hveravellir 2,3 -0,1 37 54 -1,9
Árnes 6,6 -0,3 96 139 -1,6

Meðalhiti og vik (°C) í september 2018

Hiti var undir meðallagi síðustu tíu ára á landinu öllu (sjá mynd). Að tiltölu var var hlýjast á Austfjörðum þar sem neikvæð hitavik miðað við síðustu tíu ár voru hvað minnst. Neikvætt vik miðað við síðustu tíu ár var minnst -0,7 stig á Seley en mest við Siglufjarðarveg, -2,4 stig.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í september 2018 miðað við síðustu tíu ár. 

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Steinum undir Eyjafjöllum 8,3 stig en lægstur 0,5 stig á Ásgarðsfjalli í Kellingafjöllum. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, 4,0 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 19,6 stig á Mánárbakka þ. 7. Mesta frost í mánuðinum mældist -12,8 stig á Brúarjökli þ. 23 sem er nýtt dægurlágmarksmet fyrir landið. Í byggð mældist mesta frostið -8.7 stig á Þingvöllum þ. 23 og er það mesta frost sem mælst hefur þar í september. Allmörg önnur september lágmarksmet féllu þ. 23. Til að mynda á Ásgarði, Súðavík, Siglunesi, Ögri, Ísafirði, Kjalarnesi og í Bolungarvík.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 75,4 mm sem er um 13% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 54,7 mm og er það 40% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 45,0 mm og 138,2 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 15, 3 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 13 daga mánaðarins, 5 fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 164,3 sem er 40 fleiri en að meðallagi í september. Á Akureyri mældust 104,2 sólskinsstundir, 19 fleiri en í meðalári.

Vindur

Vindur á landsvísu var í meðallagi. Norðlægar áttir voru tíðari en suðlægar áttir, þá sér í lagi um miðjan mánuðinn. Austlægar áttir voru ríkjandi fyrri hluta mánaðar en vestlægar áttir seinni hlutann. Norðanhvassviðri var dagana 19. til 21.september sem olli vetrarfærð á fjallvegum norðanlands.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1004,6 hPa og er það 0,9 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1023,9 hPa á Gjögurflugvelli þ. 5. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 982,5 hPa í Surtsey þ. 16.

Sumarið (júní til september)

Sumarið var fremur svalt, sér í lagi suðvestanlands. Fyrrihluti sumarsins var sérlega sólarlítill um landið sunnan- og vestanvert, en hlýr norðaustan og austanlands. Síðari hlutinn var hins vegar fremur svalur, bjart um landið suðvestanvert en þungbúnara og úrkomusamara á Norðuausturlandi.

Meðalhitinn í Reykjavík 9,2 stig sem er jafnt meðatali áranna 1961 til 1990 en -1,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sumarið í Reykjavík hefur ekki verið eins kalt síðan árið 1992. Á Akureyri var meðalhiti sumarsins 9,7 stig, 0,7 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,5 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára.

Úrkoma í Reykjavík mældist 274,2 mm í sumar sem er 20% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 215,1 mm sem er 60% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 56 í Reykjavík, 11 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 48 daga í sumar, 19 fleiri en í meðalári og hafa aldrei verið fleiri.

Í Reykjavík mældust 509 sólskinsstundir í sumar, 103 stundum færri en að meðaltali 1961 til 1990 og 186 stundum færri en að meðaltali síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar í sumar 536 og er það 20 færri en að meðaltali 1961 til 1990 og 45 færri en að meðaltali síðustu tíu ára.

Fyrstu níu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 9 mánuði ársins var 5,6 stig, sem er 0,5 stigum ofan meðallags áranna 1960 til 1990, en -0,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 46. sæti á lista 148 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 5,5 stig, sem er 1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en jafnt meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 16. til 17. sæti á lista 138 ára.

Úrkoman í Reykjavík hefur mælst 752,1 mm og er það um 35% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 434,7 mm sem er einnig 35% umfram meðallags.

Skjöl fyrir september

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í september 2018 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnumveðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.








Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica