Fréttir
Þakplata vafin utan um póstkassastaurinn við bæinn
Þakplata vafin utan um póstkassastaurinn við bæinn Norðurhjáleigu í Álftaveri. (Smelltu á myndina til að stækka)

Veðurstofan greinir vegsummerki eftir skýstróka

Mikið tjón á bænum Norðurhjáleigu í Álftaveri

30.8.2018

Föstudaginn 24. ágúst 2018 bárust fregnir af miklu tjóni á bænum Norðurhjáleigu í Álftaveri sökum skýstróka sem gengu yfir jörðina síðdegis. Þegar að var komið lá mikið brak úr nálægum útihúsum á víð og dreif um jörðina, ásamt því að pallbíll með kerru hafði fokið ofan í skurð, og stafn bragga sem á jörðinni stóð gekk mjög langt inn í hús. 

Þriðjudaginn 28. ágúst fóru þær Elín Björk Jónasdóttir og Guðrún Nína Petersen, veðurfræðingar á Veðurstofunni, í vettvangsferð, fengu fylgd um svæðið með ábúendum jarðarinnar þeim Sæunni Káradóttur og Þormari Ellert Jóhannssyni  og einnig lýsingar frá ábúanda Þykkvabæjarklausturs, Kristbjörgu Hilmarsdóttur, sem varð vitni að ofsaveðrinu.

20180828_140719

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur ásamt þeim Sæunni Káradóttur og Þormari Ellert Jóhannssyni bændum í Norðurhjáleigu. (Ljósmynd: Guðrún Nína Petersen)

Þrír strókar mynduðust

Af öllum vegsummerkjum að dæma er augljóst að þarna gekk mikið á. Stórt brak barst langt frá upphaflegum stað, þök rifnuðu og stafninn og þakið á reykkofanum fauk og hefur ekki fundist. Af lýsingum Kristbjargar á Þykkvabæjarklaustri var um þrjá stróka að ræða, tveir ollu tjóninu á bænum, en sá þriðji kom ekki að Norðurhjáleigu. Hann náðist hins vegar á mynd.

Skystrokur

Þriðji og síðasti skýstrókurinn séð frá Þykkvabæjarklaustri. (Ljósmynd: Kristbjörg Hilmarsdóttir)

IMG_5973

Bárujárnsplata sem barst hvað lengst frá bænum. Horft í átt að Norðurhjáleigu og yfir  aðra plötu að sömu stærð sem sést á myndinni hér fyrir neðan. (Ljósmynd: Elín Björk Jónasdóttir)

IMG_5974

Guðrún Nína Petersen veðurfræðingur merkir staðsetningu bárujárnsplötunnar. Ástand plötunnar sýnir vel þá krafta sem hafa verið að verki. (Ljósmynd: Elín Björk Jónasdóttir)

Um sjaldgæfan atburð að ræða

Við fyrstu sýn virðast skýstrókarnir hafa myndast í útjaðri kröftugs skúraklakka en honum fylgdi haglél og fjöldi eldinga. Tilkynningar um hvirfilvinda eða myndir af skýjarönum neðan úr skúraskýjum berast Veðurstofunni flest sumur, en fram að þessu hafa ekki borist fregnir af tjóni í slíku veðri. Af því má ráða að um mjög sjaldgæft veður er að ræða. Frekari greining á veðrinu og aðstæðum á svæðinu fer fram næstu vikur og verða niðurstöður hennar birtar hér á vefnum.

Nánari upplýsingar og fróðleik um sveipi og stróka má finna á vefnum okkar á þessum hlekkjum:

http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/2643
http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1017





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica