Fréttir
Svínafellsjökull

Vinna hafin við hættumat fyrir Svínafellsjökul

"Áskorun að vakta óstöðugar fjallshlíðar" segir norskur sérfræðingur

16.11.2018

Ráðstefna um framhlaup var haldin í Norræna húsinu þriðjudaginn 13. nóvember á vegum Veðurstofunnar, Háskóla Íslands og rannsóknarverkefnisins NORDRESS. Níu erlendir sérfræðingar héldu erindi á ráðstefnunni, auk íslenskra sérfræðinga frá Veðurstofunni, Háskóla Íslands og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Tilgangur ráðstefnunnar var að læra af reynslu annarra þjóða af vöktun, kortlagningu, líkanreikningum og hættumati fyrir óstöðugar hlíðar þar sem talið er að framhlaup geti orðið.

Sérstök áhersla var lögð á Svínafellsheiði þar sem sprunga í berggrunni uppgötvaðist nýlega og hætta er talin á framhlaupi. „Svínafellsheiði er fyrsta óstöðuga fjallshlíðin sem við vöktum með síritandi mælitækjum. Það er því mikilvægt fyrir okkur að leita þekkingar erlendis til þess að skipuleggja vöktun, sjá hvaða aðferðir hafa verið reyndar, hvað virkar vel og hvað virkar illa“, segir Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavaktar Veðurstofunnar.

Áskorun að vakta óstöðugar fjallshlíðar

Lars Harald Blikra var einn af þeim erlendu sérfræðingum sem héldu erindi á ráðstefnunni. Hann vinnur hjá norsku vatnafræðistofnuninni (NVE) og stjórnar deild sem vaktar óstöðugar fjallshlíðar. Sjö slík svæði eru talin sérlega varasöm og eru vöktuð nákvæmlega í rauntíma. Þeirra frægast er líklega fjallið Mannen í Romsdal, en þar eru óstöðugar hlíðar og óstöðugasti hlutinn, sem kallast Veslemannen, færist um tugi sentimetra á sólarhring þegar mest er. Þar eru grjóthrun og smáskriður algengar en óttast er að  berghlaup geti orðið og hús á úthlaupssvæðinu hafa oft verið rýmd þegar hreyfingarnar eru hvað mestar.

Lars sagði frá ýmsum aðferðum sem notaðar eru til þess að vakta óstöðugar hlíðar í Noregi. Boraðar eru djúpar borholur til þess að kanna jarðlagaskipan og hvar mögulegir skriðfletir/ brotfletir liggja. Einnig eru notaðir síritandi togmælar á mismunandi stöðum í sprungum, svo og sjálfvirkar GPS stöðvar og jarðskjálftamælar á mörgum mismunandi stöðum í hlíðinni. Þar að auki eru oft notaðir radarar og leysimælar til þess að fylgjast með hreyfingu allrar hlíðarinnar. Lars segir það áskorun að vakta óstöðugar fjallshlíðar. „Það er ábyrgðarhlutverk að hækka viðbúnaðarstigið upp í rautt sem kallar á rýmingu svæðis, en ekki síður að taka þá ákvörðun um að lækka viðbúnaðarstig svo íbúar geti snúið aftur til síns heima. Vöktun er ekki fullkomin lausn fyrir óstöðugar fjallshlíðar, en er stundum eini mögulegi viðbúnaðurinn.“

LarsNVE

Lars Harald Blikra, sérfræðingur hjá norsku vatnafræðistofnuninni (NVE), sagði frá ýmsum aðferðum sem notaðar eru til þess að vakta óstöðugar hlíðar í Noregi. (Ljósmynd: Ármann Gunnarsson)

Knekkpunkt-dalen-fjellplata-bergeng-nve

Fjallið Mannen í Romsdal, en þar eru óstöðugar hlíðar og efsti hluti fjallsins,, sem kallast Veslemannen, færist um tugi sentimetra á sólarhring þegar mest er. (Ljósmynd: Tore Bergeng/NVE)

Mikið verk óunnið hér á landi

Þorsteinn Sæmundsson er jarðfræðingur hjá Háskóla Íslands og einn af þeim sem stóðu að ráðstefnunni. Þorsteinn segir mikilvæg tengsl hafa myndast og að áhersla verði lögð á að byggja upp náið samstarf á næstunni. „Það er mikið verk óunnið hér á landi í rannsóknum á óstöðugum hlíðum, með það að markmiði að ná yfirsýn yfir stöðuna. Það var gott að fá yfirlit yfir þær aðferðir sem notaðar eru í ýmsu löndum við kortlagningu, uppsetningu mælitækja, vöktun og líkanreikningum til þess að skoða hvaða tækni hentar best hér. Á Íslandi er berggrunnurinn þó frábrugðinn því sem gerist t.d. í Noregi og Austurríki, og því ekki hægt að yfirfæra aðferðir sem notaðar eru í öðrum löndum beint. Engu að síður er alltaf mikilvægt að deila þekkingu á milli landa“, segir Þorsteinn.

SvinaMaelir

Mælibúnaði komið upp í Svínafellsheiði í júlí í sumar. (Ljósmynd: Þorsteinn Sæmundsson)

Hættumat fyrir Svínafellsjökul flókið ferli

Framundan er að halda áfram að þróa og skipuleggja vöktun og einnig að gera hættumat fyrir Svínafellsjökul. Harpa segir að slíkt hafi ekki verið gert áður hér á landi og því mikilvægt að nýta reynslu erlendis frá. „Í hættumati fyrir Svínafellsjökul og svæðið neðan hans, þarf að leggja mat á hvað getur gerst og hversu stórt áhrifasvæði berghlaups yrði. Það er flókið ferli í þessu tilfelli vegna þess að berghlaup sem fellur á jökul getur brotið upp ís, blandast honum og brætt hann að hluta þannig að úr verður samhræringur af grjóti, ís og vatni. Ef hlaupið nær jökullóninu getur það valdið flóðbylgju. Einnig þarf að hugsa fram í tímann, en Svínafellsjökull hopar hratt eins og flestir aðrir skriðjöklar landsins. Það þýðir að lónið mun stækka og dýpka sem breytir aðstæðum til hins verra. Það eru því nokkuð flóknir líkanreikningar sem þarf til að skoða þetta og á vinnufundi í tengslum við ráðstefnuna ræddu íslenskir og erlendis líkansérfræðingar saman um þetta tilfelli“, segir Harpa sem var mjög ánægð með ráðstefnuna í Norræna húsinu. Stefnt er því að kynna fyrstu drög að hættumati fyrir Svínafellsjökul um mitt næsta ár.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica