Greinar
gosmökkur
Öskufall úr gosmekki í Grímsvötnum 24. maí 2011.

Áhrif gjóskufalls á leysingu jökla

30.5.2011

Eldgos á Íslandi geta haft mikil áhrif á afkomu jökla hvort sem þau verða í jöklunum sjálfum eða utan þeirra. Þegar gos verður undir jökli fer oft mikill hluti af orkunni í að bræða jökulís. Gos verða í Vatnajökli að jafnaði um 10 hvert ár eða oftar (Guðrún Larsen o.fl. 1998). Undanfarin 15 ár hafa hér á landi orðið fimm gos undir jökli. Það getur skipt mörgum rúmkílómetrum af ís sem bráðnar í einu eldgosi, til dæmis bráðna meira en 5% af heildarrúmmáli Mýrdalsjökuls í stórum Kötlugosum.

Þegar þunn slikja af ösku leggst á yfirborð jökuls minnkar endurkast (albedo) jökulsins verulega og mun stærri hluti geislunar, sem er einn þeirra orkuþátta sem mest áhrif hafa á leysingu jökuls, fer í að bræða snjó og ís. Um sumarið skolast gjóskan af yfirborði jökulsins neðan snælínu (ber jökulís) þar til snælínan færist upp fyrir hjarnmörk. Ofan hjarnmarka skolast hún ekki af. Þannig hefur gjóskan minni áhrif á leysingu á berum jökulís en á snjó og hjarni. Þegar snjóar aftur á gjóskulagið eru áhrif þess á leysingu hverfandi lítil. Verði gjóskulagið um eða yfir 2 mm á þykkt fara einangrunaráhrif þess að yfirgnæfa leysingaráhrifin enda er eldfjallaaska og vikur mjög góð einangrun. Þegar svo þykkt lag er komið á jökul seinkar það leysingu á vetrarsnjó þannig að snælínan færist mun hægar upp eftir jöklinum en ella væri.

Heklugosið 17. janúar 1991 lagði 0,1 - 0,7 mm þykkt lag af svartri ösku yfir Hofsjökul (Guðrún Larsen o. fl. 1992). Þetta jók leysingu það árið til mikilla muna. Samkvæmt gráðudagalíkani Tómasar Jóhannessonar jók það gráðudagastuðul fyrir snjó úr 0,0056 m/°C*d í 0,0090 m/°C*d fyrir afkomuárið 1990-1991 (Tómas Jóhannesson o. fl. 1995). Eining stuðulsins er nánar tiltekið metrar deilt með gráðufjölda (yfir frostmarki, 0°C) og dögum.

Sumarið 2010 var með hlýjustu sumrum sem komið hafa á Íslandi síðan hitamælingar hófust. Vorið 2010 gaus Eyjafjallajökull og sáldraði ösku víða um land. Hlýindin og askan hjálpuðust að við að bræða jöklana þannig að meira vatn var í jökulám en nokkru sinni fyrr síðan samfelldar vatnamælingar hófust á 5. áratug 20. aldar. Ein af mældu jökulánum gaf hins vegar miklu minna vatn en sumarhlýindi gáfu tilefni til en það var Markarfljót (sjá fróðleiksgrein Snorra Zóphóníassonar). Markarfljót kemur að meginhluta til úr norðanverðum Mýrdalsjökli og á vatnasviði árinnar á jöklinum lá gjóskulag sem var um það bil ½ cm á þykkt.

Grímsvatnagosið í maí 2011 lagði mikla gjósku yfir stóran hluta Vatnajökuls. Allur suðvesturfjórðungur jökulsins lenti undir meira en 1 cm þykku lagi. Því má gera ráð fyrir að á sumri komanda verði minna vatn, en ætla mætti út frá loftslagsáhrifum einum, í öllum jökulám frá Tungná í vestri og austur fyrir Skeiðará og ef til vill víðar. Gera verður ráð fyrir að aurburður aukist til muna í þessum ám vegna gjóskunnar sem fallið hefur á vatnasvið þeirra.

Heimildir:

Guðrún Larsen, Elsa G. Vilmundardóttir og  Barði Þorkelsson, 1992. Heklugosið 1991: Gjóskufallið og gjóskulagið frá fyrsta degi gossins. Náttúrufræðingurinn 61 (3-4), p. 177-191.

Guðrún Larsen, Magnús T. Guðmundsson og Helgi Björnsson, 1998. Eight centuries of periodic volcanism at the center of the Iceland hotspot revealed by glacier tehprostratigraphy. Geology 26, no. 10, 943-946.

Snorri Zóphóníasson 2011. Vefur Veðurstofu Íslands (http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/2076)

Tómas Jóhannesson, Oddur Sigurdsson, Tron Laumann and Michael Kennett, 1995. Degree-day glacier mass-balance modelling with application to glaciers in Iceland, Norway and Greenland. Journal of Glaciology, Vol. 41, No. 138, 345-358.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica