Jökulsporðamælingar

Jökulsporðamælingar

Árið 1930 hóf Jón Eyþórsson veðurfræðingur að mæla breytingar á lengd jökla víðsvegar um land. Hann fékk ýmsa í lið með sér og kom upp kerfi sem er enn við lýði. Nú er þetta verk á vegum Jöklarannsóknafélags Íslands en Vatnamælingar hafa séð um að safna gögnunum saman og gefa út niðurstöður síðan 1967. Um þessar mundir er fylgst með um 50 jökulsporðum og segja þeir mjög nákvæma sögu um veðurfar á landinu.

Vorferð JÖRFÍ 2014

Vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands 2014 var farin um mánaðamótin maí-júní. Þátttakendur komu víða að; starfsmenn og nemendur frá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, starfsmenn Veðurstofunnar og erlendir vísindamenn af ýmsu þjóðerni.

Jökulsporðamælingar voru í höndum Raunvísindastofnunar og félaga í JÖRFÍ.

Vöktun jarðhræringa

Umsvif Veðurstofunnar á Vatnajökli hafa aukist mikið undanfarin ár enda eru margar af virkustu eldstöðvum landsins undir jöklinum og aukin krafa er um að þær verði vaktaðar betur, bæði hvað varðar flóð og öskufall. Því hefur síritandi jarðskjálfta- og GPS stöðvum verið fjölgað á jöklinum og í kringum hann.

Helstu verkefni starfsmanna Veðurstofunnar í vorferð 2014 voru:

  • eftirlit og viðhald á GPS- og jarðskjálftamælum
  • gasmælingar í Kverkfjöllum og á Grímsfjalli
  • stilling tækja sem staðsett eru í Eystri Skaftárkatlinum og vakta væntanlegt flóð úr katlinum

Farið var í tvennu lagi; fjórir starfsmenn Veðurstofu voru á jöklinum 31. maí - 7. júní og svo tveir frá 7. - 10. júní. Ferðalög á Vatnajökul krefjast talsverðs undirbúnings og góðra tækja en Veðurstofan er vel í stakk búin að takast slík verkefni á hendur, bæði hvað varðar búnað og mannafla. Farið var víða um jökulinn, allt frá Hamrinum í vestri til Kverkfjalla í norðri og Esjufjalla í austri.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica