Greinar
Öskuþyrill 25. júlí 2010 kl.10:40 í Þórsmörk. Askan er efalaust úr Eyjafjallajökulsgosinu.

Þyrlar og sveipir

Ýmsu svipt í loft upp

Halldór Björnsson 15.2.2013

Rykþyrlar eru algengir á hlýjum dögum á sendnu undirlendi. Slíkir sveipir eru vel þekktir og fjallar Trausti Jónsson meðal annars um sveipi á Skeiðarársandi í fróðleiksgrein frá 2007.

Í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins mátti sjá mjög stóra öskuþyrla á Markarfljótsaurum og þyrluðu þeir öskunni hátt í loft.

Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá slíkan öskuþyril frá 25. júlí 2010. Myndina tók Kristín Jónsdóttir kl.10:40 á göngu milli Langadals og Bása í Þórsmörk. Horft er til vestnorðvesturs yfir aura Krossár en Mýrdalsjökull er í baksýn. Askan er efalaust úr Eyjafjallajökulsgosinu sem lauk rétt rúmum tveimur mánuðum áður en myndin var tekin.

Á Vísi má sjá ljósmynd af rykþyrli í maí 2011. Myndin er tekin á leið frá Jökulsárlóni og líklega er þar um gosösku að ræða.

Sveipir sem þyrla upp ryki kallast dust-devils á ensku. Áþekk fyrirbæri yfir vatnsfleti nefnast vatnssveipir eða waterspouts en þeir þyrla ekki upp vatni heldur þéttist vatn í stróknum.

Meðfylgjandi tenglar sýna dæmi frá Ástralíu um þessi veðurfyrirbæri. Annað er af vatnssveip
en hitt er af eldsveip. Eldsveipurinn einkennist af mjög hröðu uppstreymi og snúningi í mekkinum.

Fleiri myndir

Veðurstofan þiggur gjarna fleiri ljósmyndir af fyrirbærum eins og þeim sem lýst er hér fyrir ofan. Vinsamlegast notið vefformið Senda myndir eða skrifið tölvupóst á Fyrirspurnir.

Reykholt í Biskupstungum
Kaldaloftstrektir sáust úr Reykholti í Biskupstungum hinn 2. ágúst 2016 um kl. 13:15. Þessir strókar eru svokallaðar trektir (e. funnels) eða skýstrókar í myndun. Þeir náðu væntanlega aldrei til jarðar. Nærmynd (stækkanleg). Ljósmyndir: Jón Bjarnason.

Svipað fyrirbæri sást úr Urriðaholti í Garðabæ, þegar horft var í átt að Sandskeiði kl.14:10 hinn 26. ágúst 2016 (Friðrik Róbertsson): Trektlaga ský, sem ekki náði til jarðar, neðan úr stórum skýjabakka; enda ekki svo óalgengt. En í þetta skiptið náðist það ekki á mynd.

Holuhraun
Yfir Holuhrauni, 27.ágúst 2016. Rýkur vel úr hrauninu eftir úrkomu og margir strókar myndast þennan dag.  Horft í suðvestur, gígurinn sést hægra megin á mynd og Dyngjujökull í bakgrunni. Ljósmynd: Júlía Björnsdóttir.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica