Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Skjálftavirkni 25. - 31. mars 2024, vika 13

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Tæplega 280 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni sem leið. Munar þar mestu um virkni við Kleifarvatn, stærsti þar var 2,5 að stærð þann 29. mars. Engar tilkynnigar bárust okkur um að skjálftinn hafi fundist. Annars dreifðust skjálftarnir vel um skagann.

Virkni í eldgosinu í Sundhnjúkagígaröðinni hefur haldist mjög stöðugt.
Þrír skjálftar mældust úti á hrygg, allir undir 2,0 að stærð.


Suðurlandsbrotabeltið og Hengilssvæðið

Á Hengilssvæðinu mældust rúmlega 20 skjálftar. Af þeim voru flestir staðsettir í og við Eiturhól og þar mældist stærsti skjálftinn 1,6 að stærð, þann 27. mars.

Skjálftavirkni á Suðurlandsbrotabeltinu var með eðlilegu móti, um 20 skjálftar, flestir litlir og mjög dreifðir. Stærsti skjálfti þar var 1,6 að stærð, þann 27. mars.

Enginn skjálfti mældist í Heklu.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Einn smáskjálfti mældist sunnan við Skjaldbreið þann 28. mars en annars var ekkert um skjálfta í og við Langjökul og Hofsjökul í vikunni.

Austurgosbeltið

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæði
Svipuð virkni var í Mýrdalsjökli og í síðustu viku, níu smáskjálftar, allir undir 1,5 að stærð. Sjö smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, sá stærsti 1,4 að stærð þann 26. mars.

Vatnajökull
Í Vatnajökli mældust tæplega 40 skjálftar, sem er nokkuð minna en í fyrri viku en líkt og þá var virknin mest í kringum Bárðarbungu þar sem mældust rúmlega 30 skjálftar, sá stærsti 2,7 að stærð þann 27. mars.Við Grímsfjall mældust 2 skjálftar og tveir norðan Grímsvatna. Einn skjálftinn mældist við Hamarinn.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Mun meiri virkni var við Öskju og Herðubreið í viku 13 en fyrri viku. Við Öskju mældust tæplega 50 skjálftar en flestir þeirra eru hluti af hrinu við NV-verðan Öskjubarminn þann 25. mars. Stæsti skjálftinn í þeirri hrinu mældist 3,5 að stærð en einnig mældust tveir nokkuð minni um 3,2 að stærð. Annars var nokkur virkni við austanverða Öskju og Þorvaldstind. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust rúmlega 50 skjálftar litlir skjálftar, sá stærsti mældist 2,0 að stærð þann 28. mars.

Krafla og Þeistareykir

Rúmelga 30 skjálftar mældust á nyrðri hluta Norðugosbeltsins og þar af um átta smáskjálftar við Kröflu, svipaður fjöldi við Bæjarfjall en einnig varð áhugaverð hrina smáskjálfta í Gjástykki á Páskadag, 31. mars.


Tjörnesbrotabeltið

Alls mældust um 50 skjálftar á Grímseyjarbrotabeltinu og Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Voru þeir nokkuð jafndreifðir um svæðið og allir undir 2 að stærð en sá stærsti mældist 2,1 í Eyjafjarðarál. Austur af Flatey mældust um tugur skjálfta þann 31. mars. Rúmlega 10 smákjálftar mældust í Öxarfirði.



Skjálftalisti viku 13






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica