Fréttir
Ruv--1-
Mynd sem sýnir nær lóðrétta færslu á tímabilinu 7. ágúst til 6. október 2023. Myndin er unnin úr gervitunglagögnum úr Sentinel-1 (InSAR). Rauði liturinn sýnir landris.

Líkur hafa aukist á að nýr kvikugangur myndist undir Fagradalsfjalli

Mælingar sýna hröðun á landrisi

13.10.2023

Merki um landris á Reykjanesskaga mældust fljótlega eftir að eldgosinu við Litla Hrút lauk í byrjun ágúst í sumar.  Landrisið er á svipuðum slóðum og það var fyrir gosið 10. júlí sem stóð yfir í um 4 vikur. Nýjustu GPS mælingar gefa nú vísbendingar um hröðun á landrisinu.

Graf_Plott

GPS mælingar við Gónhól frá maí 2023 til október 2023. Á grafinu má sjá að landris hefur hafist á ný í ágúst og mælist nú 30 mm. Bláa lína merkir tímabilið þegar kvikugangur myndaðist og færðist nær yfirborði og rauða línan merkir upphaf eldgoss. Staðsetning mælis (GONH) er rétt sunnan við Fagradalsfjall, eins sést á kortinu hér fyrir neðan.

Graf_Nytt

Líkur hafa aukist á að nýr kvikugangur myndist undir Fagradalsfjalli

Fyrstu líkön sem keyrð hafa verið út frá gervihnattagögnum benda til þess að þensluna megi rekja til kviku sem er að safnast fyrir á um 10 km dýpi. Það ferli sem er í gangi núna  er sambærilegt því sem sést hefur í aðdraganda fyrri kvikuinnskota í Fagradalsfjalli. Enn fremur sýna gögn að hraði á aflögun hefur aukist síðustu vikur.

Líkurnar á því að nýr kvikugangur myndist undir Fagradalsfjalli hafa aukist og gæti það gerst á næstu vikum eða mánuðum. Það myndi valda skjálftavirkni þegar kvika brýtur sér leið í gegnum stökka hluta jarðskorpunnar sem gæti endað með eldgosi.

Um 520 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í síðustu viku og það sem af er þessarri viku hafa rúmlega 220 skjálftar mælst. Í síðustu viku  mældust tveir skjálftar stærri en 3,  annar 3,3 að stærð vestan Kleifarvatns og hinn 3,2 að stærð um 5 km NA við Grindavík. Fyrir eldgosin í Fagradalsfjalli 2022 og sumarið 2023 mældust þúsundir jarðskjálfta nokkra daga áður en gos hófst, þegar kvikugangur nálgaðist yfirborð.

Ruv--1-

Mynd sem sýnir nær lóðrétta færslu á tímabilinu 7. ágúst til 6. október 2023. Myndin er unnin úr gervitunglagögnum úr Sentinel-1 (InSAR). Rauði liturinn sýnir landris.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica