Fréttir
D929d32b-ab4a-4bfe-9306-7d462394a836
Gervitunglamynd frá 14. ágúst 2023.

Óbreytt staða í Öskju

Goslokum lýst yfir við Litla-Hrút. Landris mælist í Torfajökulseldstöðinni. Farið yfir stöðuna á langtímaeftirlitsfundi á Veðurstofunni

15.8.2023

Aflögunarmælingar (GPS og InSAR) sýna að landris heldur áfram í Öskju á stöðugum hraða síðan í lok september 2021. Dýpi og staðsetning á upptökum aflögunarinnar hefur ekki breyst síðan í september 2021, en upptökin eru á um 3 km dýpi. Ekki eru vísbendingar um að kvika sé að færast nær yfirborðinu.

Thumbnail

Gervitunglagögn (InSAR mynd) sem sýnir landris við Öskju frá júlí 2021 til ágúst 2023. Gul og rauð svæði fyrir miðri mynd eru svæði þar sem mest landris mælist.

Mikilvægt að fylgja leiðbeiningum landvarða þegar svæðið við Öskju er heimsótt

Sérfræðingar Veðurstofunnar eru nú við mælingar í Öskju og er von á niðurstöðum á morgun, fimmtudag. Um er að ræða gasmælingar, hitastig í Öskjuvatni og Víti verður mælt og einnig tekið sýni til að meta sýrustig vatns. Þessar mælingar eru til að meta breytingar í virkni Öskju og eru hluti af langtímavöktun á eldstöðinni.

Síðan að landris hófst í Öskju í september árið 2021 hafa landverðir, leiðsögumenn og aðrir sem eiga leið um svæðið verið beðin um að fylgjast sérstaklega með yfirborðsbreytingum á svæðinu. Ferðamönnum á svæðinu hefur verið bent á að fylgjast vel með leiðbeiningum landvarða sem allar eru unnar í samráði við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Lögreglustjórinn á Norðausturlandi. Ferðafólki hefur verið ráðlagt frá því að baða sig í Víti og dvelja langdvölum á svæðinu. Minnt er á að óvissustig Almannavarna er í gildi á svæðinu.

Fyrirboðar voru skýrir þegar gaus í Öskju 1961

Síðasta eldgos í Öskju hófst 26. október 1961 sem var hraungos, en slík eldgos eru algengust í eldstöðinni. Aðdragandi þess var greinilegur því tuttugu dögum áður varð vart við verulega aukna jarðhitavirkni og aukin skjálftavirkni mældist. Kraftmiklir jarðhitahverir mynduðust á svæðum þar sem engin virkni hafði verið áður. Á tímabilinu 6.-26. október 1961 mældust sex skjálftar yfir 3 að stærð, þar af einn yfir 4 að stærð.

Fyrir nokkrum dögum fékk Veðurstofa Íslands ábendingu um skammlífan strók sem gæti verð til marks um aukna gufuvirkni nærri Bátshrauni (austan við Víti). Af myndum að dæma sem bárust var líklega frekar um rykbólstra að ræða. Smáskriður og grjóthrun við Öskjuvatn er mjög algengt og því fylgja drunur sem heyra má innan öskjunnar. Það er búið að vera mjög þurrt á landinu síðustu vikur og mikið er af fínefnum á svæðinu sem þyrlast auðveldlega upp.

Landris mælist í Torfajökulseldstöðinni

Á fundinum voru lögð fram ný aflögunargögn sem sýna landris í miðri Torfajökulsöskjunni. Landrisið  mælist nokkrir sentimetrar en sést bæði í InSAR og GPS gögnum. Af gögnum að dæma hófst landrisið um miðjan júní. Líklegasta túlkunin á þessu stigi er sú að ný kvika sé að safnast fyrir á dýpi og valda þenslu í eldstöðinni. Á næstu vikum verður lagt kapp á að greina gögnin frekar og reikna líkön til að skorða dýpi og umfang kvikunnar. Engin marktæk breyting er á jarðskjálftavirkni síðan að landrisið hófst. 

Síðast gaus í Torfajökli árið 1477. Eldstöðvakerfið nær yfir megineldstöð og sprungusveim (stefna NA-SV) og er um 40 km langt og 30 km breitt. Í megineldstöðinni er askja, 18x12 km og þar er stærsta jarðhitasvæði Íslands, um 150 km2.

T9_20230621-20230808_cropped

Gervitunglagögn (InSAR mynd) sem sýnir landris í Torfajökulseldstöðinni. Gul og rauð svæði fyrir miðri mynd eru svæði þar sem landris mælist.


Mynd-15082023-Torfajokull

Kort úr Íslensku eldfjallavefsjánni sem sýnir Torfajökulseldstöðina.

Goslokum lýst yfir við Litla-Hrút

Tíu dagar eru frá því að virkni mældist í gígnum við Litla-Hrút. Nánast engin aflögun mælist lengur á svæðinu og dregið hefur verulega úr jarðskjálftavirkni. Því má segja að enn einum kafla í eldsumbrotunum á Reykjanesskaga sé lokið. Mikilvægt er þó að hafa í huga að enn er hætta nærri gossvæðinu. Mikill hiti leynist í nýja hrauninu. Sums staðar er aðeins þunn skel yfir annars funheitu og óstorknuðu hrauni. Jaðrar nýja hraunsins eru óstöðugir og úr þeim geta fallið stóri hraunmolar. Gas sem sleppur úr hrauninu getur safnast í dældir. Í kjölfar umbrotanna leynast líka sprungur á svæðinu sem skapa hættu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica