Fréttir

Tíðarfar í júlí 2023

Stutt yfirlit

2.8.2023


Júlí var mjög þurr á sunnan- og vestanverðu landinu. Á allmörgum stöðvum í þeim landshlutum mældist heildarúrkoman innan við 10 mm og er víða sú minnsta sem vitað er um í júlí. Sólskinsstundir í Reykjavík voru óvenju margar og hafa aðeins einu sinni mælst fleiri. Norðan- og norðaustanáttir voru ríkjandi allan mánuðinn. Það var kalt á norðan- og austanverðu landinu en að tiltölu hlýrra á Suðvesturlandi.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 11,5 stig og er það 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en jafn meðalhita síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 9,6 stig, 1,6 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 9,9 stig og 10,4 stig á Höfn í Hornafirði.

Á landsvísu var meðalhitinn um 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Landsmeðalhiti júlímánaðar var lægri en meðalhiti landsins í júní, sem er ekki algengt. Á einstökum stöðvum var munurinn talsverður, þá sérstaklega á Norður- og Austurlandi þar sem júní var sérstaklega hlýr. Á Egilsstöðum var meðalhiti júnímánaðar t.a.m. rúmlega 4 stigum hærri en meðalhiti júlímánaðar.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2013-2022 °C
Reykjavík 11,5 -0,1 43 153 0,0
Stykkishólmur 9,9 -0,8 105 til 106 178 -0,8
Bolungarvík 9,1 -0,9 96 til 97 126 -0,8
Grímsey 6,5 -2,0 124 til 125 150 -2,3
Akureyri 9,6 -1,6 118 til 119 143 -1,9
Egilsstaðir 8,6 -2,2 63 69 -2,4
Dalatangi 7,9 -0,8 60 85 -1,2
Teigarhorn 8,9 -0,5 68 151 -0,8
Höfn í Hornaf. 10,4


-0,5
Stórhöfði 10,9 0,5 24 147 0,8
Hveravellir 7,5 -0,7 33 59 -0,8
Árnes 12,2 0,5 27 144 0,5

Meðalhiti og vik (°C) í júlí 2023

Júlí var kaldur á norðan- og austanverðu landinu. Suðvesturlandið var að tiltölu hlýrra. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,1 stig við Ölkelduháls. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -2,6 stig í Flatey í Skjálfanda og Möðrudal.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í júlí miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 12,5 stig í Selvogi en lægstur 3,0 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 6,2 stig á Fonti á Langanesi.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 26,5 stig á Hjarðarlandi í Biskupstungum þ. 9. Mest frost í mánuðinum mældist -2,6 stig á Gagnheiði þ. 4. Mest frost í byggð mældist -0,3 stig á Hallormsstað þ. 20.

Úrkoma

Mánuðurinn var óvenjulega þurr um landið sunnan- og vestanvert. Mjög þurrt var á Snæfellsnesi og allt austur að Höfn. Á allmörgum stöðvum mældist heildarúrkoman innan við 10 mm og er víða sú minnsta sem vitað er um í júlí.

Úrkoma í Stykkishólmi mældist aðeins 4,7 mm, og er þetta næstþurrasti júlímánuður frá upphafi úrkomumælinga sem hófust þar árið 1857. Þurrara var í júlí 1939 (3,9 mm). Júlíúrkoman mældist álíka mikil og nú árin 1881 (5,0 mm) og 2015 (5,1 mm). Úrkoma í Reykjavík mældist 17,2 mm sem er um 35% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Þetta er með þurrari júlímánuðum í Reykjavík, en þeir hafa þó nokkrir verið þurrari, síðast 2009 þegar úrkoman mældist 11,5 mm. Mjög þurrt var á Reykjanesi. Í Keflavík mældist úrkoman aðeins 9,5 mm og er þetta þurrasti júlímánuður sem vitað er um þar, einnig mældist mjög lítil úrkoma í Grindavík. Á Vogsósum í Ölfusi mældist heildarúrkoma mánaðarins aðeins 0,9 mm. Við Írafossvirkjun í Grímsnesi mældist heildarúrkoma mánaðarins 4,9 mm sem er aðeins um 5% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Vatnskarðshólum mældust einnig aðeins 4,9 mm sem er það langminnsta sem mælst hefur þar. Í Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 11,6 mm sem er það minnsta sem hefur mælst þar í júlímánuði. Það var úrkomusamara á Norður- og Austurlandi. Á Akureyri mældist úrkoman 25,8 mm sem er um 75% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 3, sjö færri en í meðalári og hafa ekki verið eins fáir síðan í júlí 1936. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 12 daga sem er fimm dögum fleiri en í meðalári. Í Stykkishólmi var aðeins einn slíkur úrkomudagur en á Höfn í Hornafirði voru þeir 5.

Sólskinsstundafjöldi

Júlí var mjög sólríkur suðvestanlands.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 306,8 í júlí sem er 123,7 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Aðeins einu sinni hafa sólskinsstundirnar mælst fleiri í Reykjavík í júlímánuði, það var í júlí 1939 þegar sólskinsstundirnar mældust 308,4. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 143, sem er 9,5 stundum færri en meðaltal áranna 1991 til 2020.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,1 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Norðan- og norðaustanáttir voru ríkjandi allan mánuðinn.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1011,3 hPa og er það 2,1 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1022,7 hPa á Fonti á Langanesi þ. 7. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 995,3 hPa á Kirkjubæjarklaustri - Stjórnarsandi þ. 1.

Fyrstu sjö mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins mældist 4,6 stig sem er 0,3 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðanna sjö raðast í 54. hlýjasta sæti á lista 153 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sjö 4,4 stig, sem er 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 22. hlýjasta sæti á lista 143 ára.

Úrkoma í Reykjavík það sem af er ári hefur mælst 538,6 mm sem er um 15% umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 208,6 mm sem er um 80% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir júlí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júlí 2023 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.











Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica