Fréttir
Landslag
Berghlaup í Öskju 2014.

Flóðbylgjur á Íslandi

27.6.2017

Flóðbylgjur verða af völdum ýmissa náttúruhamfara, svo sem jarðskjálfta, eldsumbrota, skriðufalla og snjóflóða. Fræðiheitið sem notast er við er japanska orðið tsunami, en bein þýðing þess er hafnarbylgjur.
Flóðbylgjur vegna jarðskjálfta eru tíðar við strendur Japans og á öðrum strandsvæðum þar sem jarðskjálftavirkni er mikil. Þá veldur skyndileg aflögun hafsbotnsins því að gríðarlegur massi vatns færist til í einu vetfangi, sem leiðir til flóðbylgju sem ferðast á ógnarhraða frá upptakastað. Á úthafinu er bylgjan vart greinanleg því hún er löng (tugir eða hundruð km) en útslagið takmarkað svo halli vatnsborðsins er lítill. Þegar bylgjan kemur á grunnsævi hægir hún á sér og hækkar þegar sjórinn hleðst upp. Þannig verður bylgjunnar eingöngu vart þegar hún kemur nær landi, svo sem inn í hafnir, sem skýrir nafngiftina.

Líkan

Myndun og útbreiðsla flóðbylgna af völdum jarðskjálfta á hafsbotni (frá Encyclopaedia Britannica).

Flóðbylgjur vegna ofanflóða sem falla í vötn eða sjó eru yfirleitt töluvert minni en flóðbylgjur sem verða vegna jarðskjálfta en áhrifin geta verið mjög mikil í nágrenni farvegarins. Í Noregi hafa skriður valdið stórum flóðbylgjum þegar þær ganga út í þrönga firði. Á síðustu öld létust samtals 174 manns í þremur slíkum tilvikum, í Loen 1905 og 1936 og í Tafjord 1934 (Ólafur Jónsson, 1957, 1976, 1992). Fjölmörg dæmi eru um flóðbylgjur vegna skriðufalla sem ganga út í stöðuvötn en eitt það þekktasta er skriða við Vajont stífluna á Ítalíu árið 1963 þar sem skriðan olli 250 m hárri flóðbylgju í uppistöðulóni, sem fór yfir stífluvegginn og olli dauða um 2000 manns sem bjuggu í þorpum neðan stíflunnar.

Skemmst er að minnast flóðbylgjunnar sem gekk yfir þorp á vesturströnd Grænlands eftir að stórt berghlaup féll í sjó fram þann 17. júní síðastliðinn. Slík berghlaup eru nokkuð algeng á Grænlandi, síðast árið 2000 féll gríðarstórt berghlaup sem nam 90 milljón rúmmetrum á svipuðum slóðum í sjó og olli flóðbylgju sem skolaðist upp í 50 metra hæð á stóru svæði og skildi eftir mikil ummerki. Til allrar hamingju var það utan byggðar svo ekki hlaust manntjón af en mikil eyðilegging varð í yfirgefnu námuþorpi sem nefnist Qullissat á norðurströnd Diskoeyju.

Þekkt eru nokkur tilvik þar sem flóðbylgjur vegna snjóflóða sem falla út í firði hafa valdið tjóni á mannvirkjum og búfénaði. Í Súgandafirði féll stórt snjóflóð ofan í fjörðinn í október 1995, sama dag og mannskætt snjóflóð féll á Flateyri. Snjóflóðið í Súgandafirði olli flóðbylgju sem fór yfir fjörðinn og olli tjóni á bátum og mannvirkjum í höfninni á Suðureyri og braut sundlaugina á Laugum innan við þorpið. Um 30 kindur drápust. Árið 1919 féll snjóflóð í sjó fram á Siglufirði gegnt eyrinni þar sem bærinn stendur. Snjóflóðið sópaði burt síldarverksmiðju og nokkrum húsum og alls fórust 9 manns. Snjóflóðið olli einnig flóðbylgju sem skall á Siglufjarðareyri og varð tjón á skipum og mannvirkjum. Einnig er vitað um flóðbylgju á Siglufirði vegna snjóflóðs á sama svæði árið 1839, en á þeim tíma bjó enginn þar sem snjóflóðið féll.

Kort

Myndin sýnir hvernig flóðbylgja í kjölfar Víkurhólahlaupsins gæti hafa gengið á land í Eyjafirði fyrir um 7000 árum.

Ekki hefur verið talin stafa mikil hætta af skriðuflóðbylgjum á Íslandi vegna þess hversu sjaldgæfar þær eru, en talið er að stórar skriður eða berghlaup falli í sjó fram einu sinni til tvisvar á hverju árþúsundi hér á landi þótt ekki séu heimildir um það á sögulegum tíma (Árni Hjartarson, 2006). Fyrir um 7.000 árum féll gríðarlega stórt berghlaup út í Eyjafjörð við Víkurhóla og talið er líklegt að það hafi sett af stað flóðbylgju á firðinum (Maren Davíðsdóttir, 2008).

Sumarið 2014 féll stórt berghlaup í Öskjuvatn, eitt stærsta berghlaup á sögulegum tíma á Íslandi, og olli flóðbylgju sem skolaðist langt upp á bakkana allt í kringum vatnið. Heildarrúmmál hlaupsins hefur verið metið um 20 milljónir rúmmetra og af þeim fór um helmingur ofan í vatnið og er berghlaupstungan á vatnsbotninum um 2 km að lengd. Svo heppilega vildi til að hlaupið varð síðla kvölds þegar enginn var nærri vatninu en aðeins nokkrum klukkustundum fyrr voru tugir ferðamanna niðri á vatnsbakkanum við Víti, sem hefðu átt erfitt með að komast undan flóðbylgjunni. Bylgjan barst yfir vatnið á einungis 1–2 mínútum. Hún náði víða 2040 m hæð umhverfis vatnið en reis hæst upp í um 60–80 m hæð í giljum við suðurströnd vatnsins þar sem landslag við ströndina magnaði ölduna. Annað dæmi um nokkuð nýlega flóðbylgju af völdum berghlaups er Steinsholtshlaupið, en um miðjan janúar 1967 hrundi í asahláku stór bergspilda á Steinsholtsjökul, sem er skriðjökull úr Eyjafjallajökli. Berghlaupið rann niður jökulinn og endaði í lóni við jökuljaðar og við það gekk flóðbylgja niður Steinsholtsá og Markarfljót til sjávar.

Líkan

Yfirlitsmynd af umfangi berghlaups og flóðbylgjuhæð í Öskju. Veðurstofa Íslands.

Ummerki flóðbylgju.

Ummerki flóðbylgjunnar á Öskjuvatni. Rof við Vítisströnd. Veðurstofa Íslands.

Þekkt eru dæmi þess að jarðskjálftar á Tjörnes brotabeltinu hafi valdið flóðbylgjum. Í júní 1934 varð jarðskjálfti, Dalvíkurskjálftinn, sem mældist 6,2 stig á Richter skala. Talið er að hann hafi átt upptök á sjávarbotni í Eyjafirði, á milli Hríseyjar og lands, í um 1 km fjarlægð frá Dalvík (Sigurður Þórarinsson, 1937). Skjálftinn olli mikilli eyðileggingu í nágrenni upptakanna. Sjómenn sem voru úti á firðinum sögðust hafa séð röð alda sem skipin risu og hnigu á. Einnig eru merki um að flóðbylgju hafi orðið vart á Hrísey, um 6 km norðaustur af Dalvík. Árið 1755 átti stór jarðskjálfti upptök á Skjálfanda og olli hann að öllum líkindum flóðbylgju á flóanum, sem grandaði tveimur bátum svo flestir um borð drukknuðu. Er það eina manntjónið sem vitað er um af völdum flóðbylgna á Íslandi.

Eldsumbrot geta einnig valdið flóðbylgjum, annars vegar við það að óstöðugar hlíðar eldfjalla gefa sig og falla í vatn eða sjó, hins vegar geta jökulhlaup vegna gosa undir jökli runnið í sjó og valdið flóðbylgjum. Vitað er að þetta hafi gerst í Kötlugosinu árið 1721 og sagnir eru um að bylgjan hafi gengið á land í Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn og Grindavík.

Loks geta neðansjávarskriður úr landgrunnsbrúnum valdið mjög stórum flóðbylgjum. Fyrir rúmum 8.000 árum féll stærsta þekkta skriða allra tíma úr landgrunnsbrúninni við vesturströnd Noregs. Rúmmál hennar er talið hafa verið 3.500 rúmkílómetrar, sem svarar til þess að ef efninu væri jafndreift yfir Ísland yrði lagið 34 metra þykkt. Víðtæk ummerki um flóðbylgjuna sem skriðan setti af stað hafa fundist við strendur Skotlands, Noregs, Færeyja og Íslands. Óþekkt er hvort slíkar skriður hafi fallið úr landgrunnsbrúninni við Ísland.

Teikning

Staðsetningar upptaka flóðbylgna við strendur Íslands, bæði þar sem þær hafa og gætu orðið. Rauðir plúsar merkja grjóthrun sem orðið hefur á nútíma (frá ísaldarlokum), grænir tíglar eru staðir þar sem vitað er af óstöðugu bergi sem fallið gæti í sjó fram en bláir hringir þar sem snjóflóð geta fallið í sjó. Gulir þríhyrningar tákna skriður, svartir krossar jökulhlaup og brúnar stjörnur svæði þar sem neðansjávarskriður gætu farið af stað. Mynd: Matthew J. Roberts.

Veðurstofa Íslands sinnir eftirliti með náttúruvá á Íslandi og sendir út viðvaranir vegna veðurs, jarðhræringa, ofanflóða og vatnsflóða. Ofanflóðavakt Veðurstofunnar fylgist með ofanflóðahættu í byggð og gefur út viðvaranir eða tilkynningu um rýming húsnæðis ef hætta er talin geta skapast. Á nokkrum stöðum á landinu er fylgst með hreyfingu jarðlaga eða sprungum í berggrunni. Dæmi um slíkan stað er Óshyrna við Ísafjarðardjúp þar sem sprunga er í bergi sem fylgst hefur verið með í nokkurn tíma og mæla starfsmenn Veðurstofunnar gliðnunina árlega. Ef stykkið færi í heilu lagi myndi það falla út í sjó. Grófir útreikningar á hugsanlegri stærð sjávarbylgju vegna skriðu úr Óshlíð voru gerðir af VST árið 2006. Þar kemur fram að flóðbylgja sem myndi ná Bolungarvík gæti mest náð um 1,5–2 m hæð, sem ætti ekki að valda tjóni á hafnarmannvirkjum eða byggð. Ekki er talið líklegt að hætta sé á flóðbylgju á Ísafirði eða Hnífsdal og þaðan af síður í öðrum byggðarlögum á svæðinu.

Auk manntjónsins sem varð á Skjálfandaflóa í jarðskjálftanum 1755, eins og getið er um að framan, er vitað um a.m.k. eitt tilvik þess að flóðbylgja af völdum skriðufalla hafi valdið tjóni í byggð hér á landi. Það var árið 1906 þegar skriða úr Hólmatindi við Eskifjörð gekk í sjó og olli flóðbylgju sem braut bryggjur og báta hinum megin fjarðarins. Hættan á flóðbylgjum vegna skriðufalla er þó ekki talin mikil og mun minni en vegna ýmissa annarra tegunda náttúruhamfara á Íslandi. Hins vegar verður að hafa í huga að þótt árlegar líkur á flóðbylgjum séu litlar þá geta afleiðingar flóðbylgju verið gríðarlegar eigi þær sér stað. Líklegt má teljast að með áframhaldandi hopun jökla komi undan þeim óstöðugar hlíðar sem jökull hefur grafið undan auk þess sem óstöðugar hlíðar að finna þar sem eldsumbrot eru nýleg. Mörg þessara svæða eru vinsælir ferðamannastaðir, t.d. Askja og svæði við Skaftafells- og Sólheimajökla. Þar geta berghlaup eða minni skriður skapað hættu fyrir ferðamenn og sumstaðar er hætta á flóðbylgjum í jökullónum eða stöðuvötnum. Á slíkum svæðum er mikilvægt að skipuleggja þjónustu og göngustíga þannig að ferðamenn safnist síður saman á hættulegum stöðum og séu upplýstir um hættuna, t.d. með skiltum. Gert hefur verið Hættumat vegna berghlaupa í Öskju (Sigríður Sif Gylfadóttir o.fl., 2016).

Heimildir um efnið:

Árni Hjartarson (2006). Flóðbylgjur (tsunami) af völdum berghlaupa og skriðna – Eru þær algengar á Íslandi? Náttúrufræðingurinn, 74, bls. 11–15.

Guðmundur Kjartansson (1968). Steinsholtshlaupið 15. Janúar 1967. Náttúrufræðingurinn, 37, bls. 120–169.

Harpa Grímsdóttir, Jón Kristinn Helgason, Sveinn Brynjólfsson, Eiríkur Gíslason, Tómas Jóhannesson, Kristín Vogfjörð, Martin Hensch, Kristín Jónsdóttir, Melissa Anne Pfeffer, Ármann Höskuldsson, Freysteinn Sigmundsson, Ásta Rut Hjartardóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Ágúst Guðmundsson (2016). Berghlaup í Öskju 21. júli 2014. Yfirlit um mælingar og könnun á vettvangi. Veðurstofa Íslands, greinargerð HG/2016-01.

Maren Davíðsdóttir (2008). Víkurhólar í Eyjafirði: Skriðufall í sjó fram og hugsanleg flóðbylgja af þess völdum. Meistararitgerð frá HÍ.

Ólafur Jónsson (1957, 1976, 1992). Skriðuföll og snjóflóð. Bókaútgáfan Skjaldborg, Reykjavík.

Sigríður Sif Gylfadóttir, Jón Kristinn Helgason, Sveinn Brynjólfsson, Eiríkur Gíslason og Tómas Jóhannesson (2016). Hættumat vegna berghlaupa í Öskju . Veðurstofa Íslands, skýrsla 2016-007.

Sigríður Sif Gylfadóttir, Jihwan Kim, Jón Kristinn Helgason, Sveinn Brynjólfsson, Ármann Höskuldsson, Tómas Jóhannesson, Carl Bonnevie Harbitz og Finn Løvholt (2017). The 2014 Lake Askja rockslide-induced tsunami: Optimization of numerical tsunami model using observed data. Journal of Geophysical Review: Oceans. DOI: 10.1002/2016JC012496.

Sigurður Þórarinsson (1937). Das Dalvik-beben in Nordisland 2. Juni 1934. Geografiska annaler XIX: 232–277.

Þorvaldur Thoroddsen (1905). Landskjálftar á Íslandi. Hið íslenzka bókmenntafjelag, Kaupmannahöfn.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica