Fréttir
Haraldur Ólafsson, Kent Moore og Jón Egill Kristjánsson (t.h.) í rannsóknarflugi fyrir áratug.

Íslenskur veðurfræðingur lést af slysförum í Noregi

Merkur vísindamaður fallinn frá langt fyrir aldur fram

23.8.2016

Mánudaginn 15. ágúst bárust þau sorgartíðindi frá Noregi að Jón Egill Kristjánsson prófessor hefði látist af slysförum í Jötunheimum. Þetta var harmafrétt fyrir starfsmenn Veðurstofu Íslands en Jón Egill var samstarfsmaður og vinur margra starfsmanna Veðurstofunnar um áratugaskeið. Við fráfall hans er skarð fyrir skildi sem erfitt verður að fylla.

Ferill og framlag

Jón Egill lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Bergen árið 1991. Næsta ár vann hann við rannsóknir á Norsku veðurstofunni og síðan við hina virtu rannsóknarstofnun Los Alamos National Laboratory sem er í Nýja Mexíkó fylki í Bandaríkjunum. Frá 1993 starfaði hann við Óslóarháskóla, fyrst sem dósent í veðurfræði, en frá aldamótum sem prófessor. Honum var veitt heiðursdoktorsnafnbót frá Stokkhólmsháskóla árið 2013. Hann stjórnaði og tók þátt í mörgum rannsóknarverkefnum, leiddi norrænt samstarf um svokölluð jarðkerfislíkön (ESM) og var varaformaður vísindanefndar Reiknimiðstöðvar evrópskra veðurstofa (ECMWF).

Framlag Jóns Egils til veðurfræði er mikið og fáir íslenskir veðurfræðingar hafa haft jafnmikil áhrif. Jón Egill var óvenjulega fjölhæfur vísindamaður og stundaði rannsóknir á mörgum ólíkum sérsviðum veðurfræði.

Eðlisfræði skýja og loftslagsrannsóknir

Doktorsverkefni Jóns Egils fjallaði um eðlisfræði skýjamyndunar og framsetningu hennar í veðurlíkönum. Skýjamyndun er ferli sem er mjög erfitt að lýsa eðlisfræðilega en skiptir miklu máli fyrir orkubúskap og úrkomu í lofthjúpnum. Þó mörg önnur viðfangsefni bættust við á rannsóknarferli Jóns Egils í áranna rás þá hélt hann áfram að bæta við þekkingu á skýjaeðlisfræði. Aðferðir sem hann og samstarfsmenn stungu upp á, s.s. Rasch-Kristjánsson þéttingaraðferðin, eru notaðar til að reikna skýjamyndun í flestum nútíma veðurspálíkönum, m.a. hér á landi.

Sérþekking Jóns Egils á eðlisfræði skýja nýttist einnig við loftslagsrannsóknir en rétt eins og gróðurhúsalofttegundir hafa ský áhrif á orkubúskap og hitafar jarðar. Rannsóknir Jóns Egils á áhrifum skýja á loftslag leiddu til rannsókna á agnamengun, s.s. sóti, gjósku og ögnum frá iðnaði og samgöngum, og áhrifum hennar á skýjamyndun, og möguleikum þeirra til að breyta skýjafari og draga með því úr hlýnun vegna aukningar í styrk gróðurhúsalofttegunda. Þetta rannsóknarsvið er mjög víðfeðmt og árið 2015 birtu Jón Egill og samstarfsmenn hans grein í tímaritinu Nature Geoscience um áhrif íslenskra eldfjalla á loftslag á jörðinni.

Jón Egill var vinsæll fyrirlesari og höfundur vísindagreina fyrir almenning, m.a. um loftslagsmál, og hann hélt erindi fyrir almenning hér á landi um loftslagsbreytingar af mannavöldum sem vöktu athygli.

Þróun lægða og óveðurskerfa

Annar þráður í rannsóknum Jóns Egils var þróun lægða og óveðurskerfa. Um þetta efni birti hann margar greinar, oft í samstarfi við íslenska vísindamenn, s.s. Guðrúnu Nínu Petersen, Harald Ólafsson og Sigurð Þorsteinsson. Hann hafði sérstakan áhuga á veðurfari og veðurspám á norðlægum slóðum sem og áhrifa Grænlands á veður í grennd við Ísland. Hann tók þátt í mæliferðum við og norður af Íslandi, til dæmis „Greenland flow distortion experiment” (GFDex) árið 2007 og IPY-THORPEX árið 2008.

Einnig stundaði hann rannsóknir á orkuskiptum við yfirborð jarðar yfir ís, snjó og sífrera og á ísingu á mannvirkum svo dæmi séu nefnd.

Áhrif á íslenska vísindamenn

Jón Egill var örlátur á þekkingu sína og tíma sinn við íslenska vísindamenn og átti í árangursríku samstarfi við marga samlanda sína. Hann var ævinlega aufúsugestur þegar hann kom við á Veðurstofunni eða dvaldi þar um lengri eða skemmri tíma við rannsóknir og tók þá virkan þátt í félagsstarfi stofnunarinnar. Hann var ráðagóður og skipulagður í vinnubrögðum.

Sem prófessor við Óslóarháskóla var hann leiðbeinandi starfsmanna Veðurstofunnar, þeirra Elínar Bjarkar Jónasdóttur, Guðrúnar Nínu Petersen og Óla Þórs Árnasonar. Brennandi áhugi hans, yfirgripsmikil þekking, umhyggja og stuðningur við nemendur gerðu hann að góðum og vinsælum leiðbeinanda.

Sem vísindamaður var Jón Egill í fremstu röð um áratugaskeið. Til þess er ekki nóg að hafa þekkingu á faginu, heldur þarf líka að koma til kappsemi og dugnaður. Kappsemi hans birtist einnig í íþróttaiðkun, bæði í hlaupum og skíðagöngu.

Rannsóknarleyfi og ráðgjöf

Jón Egill dvaldi á Veðurstofunni í rannsóknarleyfi veturinn 2006 - 2007 og var ráðgjafi Veðurstofunnar og íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum fram til 2009. Eiginkona hans, Rita Moi, er veðurfræðingur á Norsku veðurstofunni og hefur hún einnig tekið þátt í samstarfi við Veðurstofu Íslands.

Þakkarskuld og samúð

Jón Egill Kristjánsson átti marga vini á Veðurstofu Íslands og stofnunin stendur í þakkarskuld við hann, bæði fyrir framlag hans til veðurfræði almennt, og einnig fyrir samstarf í marga áratugi. Hann var sannur vinur og verður sárt saknað.

Veðurstofa Íslands vottar eiginkonu Jóns Egils, Ritu, syni þeirra Kristian, bræðrum Jóns Egils, Sigurði og Ingólfi, og öðrum ættingjum dýpstu samúð.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica