Fréttir
Fallegur vetrardagur í Æðey, Ísafjarðardjúpi.

Tíðarfar í febrúar 2016

Stutt yfirlit

1.3.2016

Kalt var í veðri, sérstaklega inn til landsins. Víða var snjóþungt, en vindar voru oftast hægir þannig að samgöngur gengu lengst af greiðlega. Úrkoma var yfir meðallagi um landið norðaustan- og austanvert en nærri meðallagi eða lítillega undir því um landið suðvestan- og vestanvert.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var -0,5 stig, -0,9 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990, en -1,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er kaldasti febrúar í Reykjavík síðan 2002 en þá var mun kaldara en nú. Meðalhiti á Akureyri var -3,3 stig, -1,9 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -3,0 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er kaldasti febrúar á Akureyri síðan árið 2009.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti vik 1961-1990 röð af vik 2006-2015
Reykjavík -0,5 -0,9 80 146 -1,9
Stykkishólmur -1,3 -0,6 89 171 -1,8
Bolungarvík -1,1 -0,1 55 119 -0,9
Grímsey -0,6 0,4 56 143 -1,1
Akureyri -3,3 -1,9 97 til 98 135 -3,0
Egilsstaðir -2,2 -0,4 36 62 -1,7
Dalatangi 0,4 -0,2 47 78 -1,5
Teigarhorn -0,1 -0,3 74 144 -1,5
Höfn í Hornaf. 0,2 -0,4 -1,6
Stórhöfði 1,3 -0,7 74 140 -1,6
Hveravellir  -6,8 -1,3 35 51 -2,4
Árnes -2,3 -0,8 82 137 -2,1

Meðalhiti og vik (°C) í febrúar 2015

Að tiltölu var hlýjast við norðurströndina og á Vestfjörðum, neikvæða hitavikið var minnst í Bolungarvík og á Flateyri, -0,9 stig. Kaldast að tiltölu var inn til landsins á austanverðu Norðurlandi og í lágsveitum á Suðurlandi, stærsta neikvæða vikið, miðað við síðustu tíu ár, var -3,2 stig í Þykkvabæ. Séu vikin miðuð við 1961 til 1990 var hlýjast í Grímsey, +0,4 stig ofan meðallags.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, +2,4 stig, en lægstur á Brúarjökli, -8,2 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -6,0 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -22,5 stig við Mývatn þann 26. Mest frost á mannaðri veðurstöð mældist -16,4 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 26.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Seyðisfirði þann 16., +10,0 stig. Hæsti hiti á mannaðri stöð, 8,6 stig, mældist þann 16. á Skjaldþingsstöðum.

Úrkoma

Úrkoma var yfir meðallagi um landið norðaustan- og austanvert, en nærri meðallagi eða lítillega undir því um landið suðvestan- og vestanvert.

Úrkoman í Reykjavík mældist 65,3 mm og er það um tæp 10 prósent undir meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 76,9 mm og er það um 80 prósent umfram meðallag. Þó að þetta sé í meira lagi var úrkoma í febrúar árið 2014 töluvert meiri en nú. Í Stykkishólmi mældust 71,0 mm og er það í meðallagi í febrúar. Úrkoma mældist 225,0 mm á Höfn í Hornafirði.

Svo virðist sem úrkoma í febrúar hafi aldrei mælst meiri en nú í Litlu-Ávík á Ströndum og í Svartárkoti. Þessi nýju met eru þó aðeins sjónarmun hærri en þau eldri.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 8 í Reykjavík, 5 færri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 13, 5 fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 85,6 og er það 34 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 – með meira móti í febrúar, en langt frá meti.

Vetrarstillur
""
Vetrarstemmning. Stráin standa upp úr snjónum og teygja sig í átt að sól. Myndin er tekin 26. febrúar 2016. Ljósmynd: Eiríkur Þór Einarsson.

Vindur

Meðalvindhraði var um 0,5 m/s undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og á sjálfvirku stöðvunum var hann 0,6 m/s undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta eru mikil viðbrigði frá síðustu tveimur febrúarmánuðum. Austlægar áttir voru ríkjandi þrjá daga af hverjum fjórum en suðlægar og norðlægar áttir skiptust nokkuð á.

Þó almennt væri með hægviðrasamara móti í mánuðinum gerði samt tvö umtalsverð illviðri, af austri þann 4. og 5. og af suðaustri og síðar suðvestri og vestri þann 15. til 16. Í veðrinu þann 15. til 16. féllu ársvindhraðamet á sjálfvirku stöðvunum á Skjaldþingsstöðum (athugað frá 2006), á Bíldudal (athugað frá 1998) og á Gjögurflugvelli (athugað frá 1994). Febrúarvindhraðamet féllu að auki á allmörgum stöðvum í sama veðri, m.a á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem athugað hefur verið í nær 20 ár. Einnig féllu mánaðarmet í veðrinu þann 4. til 5., þar á meðal í Skaftafelli, á Siglunesi og á Gagnheiði, en á báðum fyrrnefndu stöðvunum hefur verið athugað sjálfvirkt síðan 1995, en ríflega ári lengur á Gagnheiði.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 998,1 hPa og er það -4,5 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Lægstur mældist þrýstingurinn í Bolungarvík þann 16., 955,8 hPa, en hæstur 1026,5 hPa á Akureyri þann 23.

Snjór

Snjóþungt var víða um land, en vegna þess hvað vindur var hægur lengst af var snjórinn furðumikið til friðs. Alhvítir dagar í Reykjavík voru 27, 14 fleiri en að meðallagi 1971 til 2000 og hafa ekki verið jafnmargir í febrúar síðan árið 2000. Snjómagn var einnig í meira lagi, líka það mesta í febrúar síðan 2000.

Alhvítt var allan mánuðinn á Akureyri, 7 dögum lengur en í meðalári. Febrúar var einnig alhvítur á Akureyri árið 2014 og hefur alls 13 sinnum verið alhvítur á þeim 93 árum sem snjóhuluathuganir ná til þar á bæ. Ekki hefur þó verið alhvítt í hlaupársmánuði á Akureyri síðan 1936. Síðustu daga mánaðarins mældist snjódýpt á Akureyri 111 cm og hefur ekki mælst meiri áður í febrúar og ekki meiri almennt síðan í mars 1995. Snjódýptarmet febrúarmánaðar féllu einnig í Reykjahlíð við Mývatn og á Bassastöðum í Steingrímsfirði.

Hiti fyrstu tvo mánuði ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tvo mánuði ársins er -0,2 stig, hinn sami og sömu mánuði i fyrra. Sami hiti var einnig tvo fyrstu mánuði ársins 2008. Þetta er við meðallag áranna 1961 til 1990. Raðast hitinn í 60. til 61. sæti 146 ára. Á Akureyri er meðalhitinn mánuðina tvo -3,0 stig, -1,2 stigum neðan meðallagsins 1961 til 1990. Mánuðirnir tveir saman hafa ekki verið kaldari á Akureyri síðan 1995 og raðast í 102. sæti 135 ára mælinga.

Skjöl fyrir febrúar

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í febrúar 2016 (textaskjal)

Þessa grein, Tíðarfar í febrúar 2016, er hægt að sækja eða lesa sem pdf.

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica