Fréttir
Vaktin brá sér út á svalir í tilefni dagsins.

Mannauður Veðurstofunnar

WMO hvetur til áherslu á þátttöku kvenna

10.3.2016

Alþjóðaveðurfræðistofnunin, WMO, hefur óskað eftir því við stofnanir er henni tengjast, að í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, sé fjallað um hlut kvenna í málefnum er varða veður, vatn og loftslag.

Veðurstofa Íslands birtir, líkt og aðrar stofnanir og fyrirtæki, yfirlit yfir mannauðinn í ársskýrslu sinni sem væntanleg er um miðjan apríl. Þar er kynjahlutfall og skipting eftir menntun sett fram á myndrænan hátt. Eins og stólparitið sýnir (smellið á tengilinn) er hlutfall kvenna á Veðurstofunni um 40%, bæði í almennum störfum og í stjórnun.

Hlutföllin varða starfsmenn á föstum starfsstöðum, alls um 130 manns, en sérstaða Veðurstofunnar er sú að þess utan hefur hún á að skipa áþekkum fjölda sem sinnir mikilvægum mælingum í sinni heimabyggð, út um allt land. Þessi störf varða veðurmælingar, mat á snjóflóðahættu, sýnatöku og margt fleira. Ætla má að í sumum tilvikum hjálpist fjölskyldan að við störfin og því er ekki auðhlaupið að draga upp hlutfallamyndir af þessum hluta mannauðsins.

Vegna framfara í tækni og aukinnar sjálfvirkni hefur fækkað í þessum hópi undanfarin ár, þrátt fyrir aukið umfang viðfangsefna stofnunarinnar.

En það fer aldrei svo, að ekki þurfi að sinna mikilvægum störfum úti í náttúrunni og fyrir utan ofangreind störf eru farnar vinnu- og eftirlitsferðir til að huga að mælum og búnaði er varða veður, vatnafar, jarðskjálfta, eldsumbrot, skorpufærslur, jökla, snjóflóð, aurskriður o.m.fl.

Jafnréttisáætlun

Í jafnréttisáætlun Veðurstofunnar er fjallað um launajafnrétti, auglýsingar, upplýsingagjöf, stöðuveitingar, starfsþjálfun, endurmenntun, starfsanda, líðan og samræmingu atvinnu og fjölskyldulífs. þar segir meðal annars:

Markmið jafnréttisáætlunar Veðurstofu Íslands er að stuðla að jafnrétti kynjanna, jafnri stöðu og virðingu kvenna og karla innan stofnunarinnar. Ennfremur aðminna stjórnendur og aðrastarfsmenn Veðurstofunnar á mikilvægi þess að allir fái notið sín án tillits til kynferðis. Veðurstofan telur mikilvægt að nýta til jafns þá auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum kvenna og karla.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica