Fréttir
SnjorHopur2
Hópurinn hittist á samráðsfundi einu sinni á ári, en restina af árinu er hópurinn dreifður um allt land. Á samráðsfundinum var farið yfir undanfarið ár, helstu snjóflóðahrinur og skriður og rýnt í viðbrögð við þeim. Einnig er rætt um miðlun upplýsinga til almennings. (Ljósmynd: Jón Gunnar Egilsson)

Snjóflóðavarnir sanna sig enn einu sinni

Samráðsfundi snjóathugunarmanna og ofanflóðavaktar Veðurstofunnar lauk í gær

19.10.2018

Í gær lauk árlegum samráðsfundi snjóathugunarmanna og ofanflóðavaktar Veðurstofunnar sem haldinn var í Reykjavík.

Ofanflóðavakt Veðurstofunnar hefur það hlutverk að fylgjast með og spá fyrir um skriðu- og snjóflóðahættu víða um land. Í þeim þéttbýlisstöðum þar sem hætta á snjóflóðum og skriðum er talin umtalsverð starfa snjóathugunarmenn á vegum Veðurstofunnar. Þeirra hlutverk er m.a. að skrá snjóflóð og skriður sem falla á þeirra svæði, fylgjast með og skrá snjódýpt í fjöllum, kanna stöðugleika snjóalaga og aðstoða við rekstur og viðhald mælitækja. Snjóathugunarmenn eru ráðgjafar ofanflóðavaktarinnar þegar kemur að ákvörðunum um viðbrögð vegna ofanflóðahættu, s.s. rýmingar húsa.  Þeir vinna mikilvægt og óeigingjarnt starf og eru nauðsynlegur hluti af ofanflóðavakt Veðurstofunnar.


Farið var yfir nýja tækni við mælingar, vöktun og ýmis öryggismál í útivinnu. Hópurinn æfði meðal annars notkun snjóflóðaýla í rigningunni á Veðurstofuhæðinni. (Ljósmynd: Haukur Hauksson)

Snjóflóðahrina í nóvember

Kalt var í nóvember og tók snjór að safnast í fjöll um mest allt land strax í byrjun mánaðarins. Um miðjan mánuðinn var kominn talsverður snjór á Tröllaskaga og SV-landi. Í lok nóvember varð talsverð hrina snjóflóða í hvassri N-lægri átt með snjókomu. Þá féllu snjóflóð á þrjá varnargarða, á annan garðinn ofan Flateyrar og tvo ofan Siglufjarðar.  Í sömu hrinu féll mjög stórt flóð yfir "náttúrulegan varnargarð" í Sveinsstaðaskál í Skíðadal og breiddi úr sér í dalbotninum skammt sunnan við eyðibýlið Sveinsstaði.

Þær varnir sem byggðar eru upp hér á landi sönnuðu sig enn einu sinni. Í fyrsta lagi auka þær öryggi fólks til muna og í öðru lagi gera þær það að verkum að rýma þarf mun sjaldnar á þeim svæðum sem eru varin, með tilheyrandi raski og óþægindum. Ef varnanna hefði ekki notið við, hefði líklega þurft að rýma mörg hús á t.d. Siglufirði, Flateyri og í Bolungarvík í þessari hrinu í nóvember.

Nánari upplýsingar um snjóflóð veturinn 2017-2018 má lesa í skýrslu á vefnum okkar.


Gróf útlína flóðsins úr Strengsgili sem fór á leiðigarðinn Stóra Bola ofan Siglufjarðar í nóvember.

Utlinur20620

Flóðið úr Sveinsstaðaskál féll fram á árbakka Skíðadalsár eða yfir hana samfellt á um 500 m kafla. Greinileg ummerki tungunnar náðu a.m.k. 40 m handan árinnar.


Hér má sjá ummerki flóðsins í farvegi Skíðadalsár.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica